8.10.2010 | 21:21
Kólnunin mikla í Norður-Atlantshafi
Það er stundum um að gera að vera nógu dramatískur í fyrirsögn. Kannski er ástæða að þessu sinni og kannski ekki. En áður en ég kem að því vil ég nefna tvær furðufréttir sem báðar snúast um meinta dramatíska kólnun sem gæti átt sér stað á næstunni í Evrópu og á hafsvæðinu hér í kring.
Á mbl.is is á þriðjudag birtist frétt sem var síðan fljótlega kippt í burtu og hefur ekki sést þar aftur. Þar kom fram að samkvæmt pólskum vísindamönnum gæti komandi vetur í Evrópu orðið sá kaldasti í heil 1.000 ár vegna þess að Golfstraumurinn væri við það lognast út af. Afleiðingin gæti orðið langvarandi kuldaskeið og allt að því ísaldarástand í Norður-Evrópu. Við nánari skoðun virðist þetta hafa verið hysteríufrétt sem fáir taka undir, ættuð úr erlendum fréttamiðlum.Þessi meinta harðindafrétt hefur sennilega verið afbökuð túlkun á orðum ítalsks eðlisfræðings Dr. Gianluigi Zangari, um að vegna olíumengunarinnar í Mexíkóflóa hefði komið ákveðið hik á sjávarhringrásir þar sem Golfstraumurinn á uppruna sinn sem gætu þýtt verulega röskun á streymi hlýsjávar út á Norður-Atlantshaf. Frétt tengd þessu birtist á Pressunni í síðasta mánuði og varað við að algert hrun gæti orðið á fiskistofnum vegna olíumengunar ásamt því að golfstraumurinn myndi stöðvast. Nokkrum dögum síðar var svo á Pressunni haft eftir íslenskum haffræðingi að þessi frétt væri óttalegt rugl eins og aðrar dómsdagsspár og auk þess erfitt að fá út að olíumengun berist hingað á sama tíma og Golfstraumurinn væri horfinn.
Sjálfsagt er engin ástæða til að óttast að Golfstraumurinn sé að stöðvast. Reyndar hefur norðurhluti Norður-Atlantshafs verið allra hlýjasta móti um nokkurt skeið og ekkert bendir til þess að Golfstraumurinn hafi veikst enda upplifum við nú eindæma hlýindi hér á landi. Hlýindum er líka spáð áfram næstu mánuði og í Reykjavík er góður möguleiki á hlýjasta árinu frá upphafi mælinga.
En hvað?
Fyrir nokkrum vikum sá ég fyrir tilviljun sjávarhitaspá frá Japönsku JAMSTEC stofnuninni (Japan Agency for Marine-Earth-Science and Technology) sem sjá má hér að neðan. Þar kemur fram að þegar líður á veturinn muni taka að kólna verulega á hafsvæðinu suður af Grænlandi og Íslandi. Þetta má sjá á hér á myndinni sem ég setti saman úr þremur spákortum sem gilda þrjá mánuði í senn fyrir komandi vetur. Hvað boðar þetta? Er kannski Golfstraumurinn að gefa sig eftir allt?
Hvað sem er hér á ferðinni þá finnst mér þetta athyglisverð spá, því ef hún gengur eftir gæti það þýtt talsvert bakslag í hitanum hér hjá okkur jafnvel næstu árin því svona kuldafrávik hefur sennilega ekki verið á Íslandsmiðum árum eða áratugum saman. Hvað býr að baki þessari Japönsku sjávarhitaspá er svo spurning. Tengist þetta olíumenguninni í Mexíkóflóa eða er þetta náttúrulegt bakslag, eða tengist þetta jafnvel minnkandi sólvirkni á einhvern hátt?
Kannski er svo bara ekkert að marka þessa langtímaspá og kannski er ég ekki að lesa rétt úr þessu. Mér finnst þetta samt vera ágæt áminning um að hvenær sem er getur komið bakslag í það mikla hlýviðraskeið sem við höfum upplifað hér á slóðum. Sjávarhitinn og heilbrigði Golfstraumsins skiptir miklu máli fyrir okkur því þótt það sé almennt að hlýna í heiminum til langs tíma litið, geta miklar sveiflur orðið á sjávarhita og hitafari á okkar slóðum eins og átti sér í kringum 1970.
Þetta er ágætt að hafa í huga á þessum hlýju októberdögum því hugsanlega erum við að upplifa síðustu góðærisdagana til sjávar og sveita að sinni allavega hvað veðrið varðar.
- - -
Ath. Undirstrikuð orð eru linkar á aðrar síður.