Hinn horfni Múlakampur

Múlakampur 1971 a 

Múlakampur 1971 a

Þegar ég man fyrst eftir mér var talsvert öðruvísi um að litast á svæðinu þar sem Síðumúli og Ármúli eru í dag. Árið 1971 þegar þessar myndir voru teknar mátti ennþá finna þar heillegt en óskipulagt samansafn misgóðra íbúðarhúsa er nefndist Múlakampur. Upphaflega mun þarna hafa verið braggabyggð frá stríðsárunum en þau merku mannvirki hurfu síðar fyrir þessum húsum sem mörg voru byggð af vanefnum í húsnæðiseklu eftirstríðsáranna.

Sjálfur ólst ég upp í Háaleitishverfinu sem þá var nýtt hverfi og fjögurra hæða blokkirnar sem þar standa í röðum eða hornrétt hver á aðra, voru alger andstæða við hinn óskipulagða heim í norðri. Í blokkinni minni á fjórðu hæð var gott útsýni yfir Múlakamp og reyndar mestallt höfuðborgarsvæðið ásamt fjöllunum í kring. Þetta útsýni var og er enn, tilvalið myndefni þó ekki væri nema til þess að klára filmuna í myndavélinni.

Íbúar Múlakamps voru í ófínna tali oftast kallaðir „kamparar“ en sem krakki datt manni ekki í hug að líta niður til þeirra nema þá í eiginlegri merkingu þar sem blokkin mín gnæfði hátt yfir kampinum. Þarna eignaðist maður líka nokkra vini og skólafélaga sem maður heimsótti stöku sinnum.

Eftir að þessar myndir voru teknar fór húsunum smám saman fækkandi og 10 árum síðar voru þau langflest horfinn og íbúarnir gjarnan búnir að hefja nýtt líf í stórblokkum Breiðholtshverfis. Múlahverfinu var þó ekki rutt í burtu í einu átaki heldur hurfu húsin bara smám saman. Það var forvitnilegt að fylgjast með þegar eitthvert húsið var rifið en dálítið sorglegt líka. Þó var gaman þegar ekki náðist að klára niðurrifið fyrir kvöldið því þá var hægt að leika sér og gramsa í rústinni. Eftir því sem kampshúsunum fækkaði risu nýbyggingar Síðumúla og Ármúla inni á milli eldri húsanna en þær byggingarframkvæmdir voru líka góður leikvöllur þar sem mátt æfa sig í klifri allskonar. Þjóðviljabyggingin að Síðumúla 6 var sérstaklega hentug og skemmtileg. Síðumúlinn var reyndar stundum kallaður „blaðsíðumúli“ enda höfðu ófá dagblöð og prentsmiðjur aðsetur þar lengi vel.

Árið 2010 sjást ekki nein ummerki eftir Múlakamp nema þá kannski stöku tré sem áður stóðu við húsgafla horfinna húsa. Þarna býr enginn nú en fjölmargir mæta þangað daglega til vinnu og þarna verslar fólk sjónvörp, baðkör, stofulampa og gæludýr svo eitthvað sé nefnt. Útsýnið af uppeldisstöðvunum er líka fínt sem fyrr þótt nærumhverfið hafi breyst.

Múlahverfi 2010


Bloggfærslur 13. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband