24.12.2010 | 02:14
Aðfangadagsveðrið síðustu 25 ár
Jólin eru að koma enn eina ferðina og að því tilefni hef ég tekið saman hátíðlegt yfirlit yfir veðrið á aðfangadag allt frá árinu 1986. Þetta er sett fram á svipaðan hátt og það birtist í minni handskrifuðu veðurdagbók. Veðurtáknin skýra sig sjálf en lituðu kúlurnar fyrir aftan hitastigið tákna kalda, miðlungs og heita daga. Snjókorn og dropar segja til um hvort hvít jörð er á miðnætti eða blautt. Einkunnin kemur svo í lokin en hún er útreiknuð útfrá veðurtáknunum samkvæmt ákveðnu kerfi. Þetta er sett fram með fyrirvara um vissa ónákvæmni, sérstaklega framan af áður en netið kom til sögunnar.
Það er auðvitað heilmikil fjölbreytni í jólaveðrum síðustu 25 ára en þó kannski engir meiriháttar veðurviðburðir. Versta jólaveðrið þarna er snjóbylurinn á árinu 1998 sem sumum þykir sjálfsagt hið skemmtilegasta jólaveður - allavega miðað við landsynningsslagviðrið árið 1996. Talsverð hlýindi voru árin 2002 og 2006 en svoleiðis vetrarveður hafa verið nokkuð algeng síðustu árin þó ekki hafi slíkir hitar náð sér almennilega á strik í vetur. Svo sést þarna að í 13 skipti hefur jörð verið hvít á miðnætti, þ.e. kl. 24 á aðfangadagskvöldi. Í fyrra var það þó alveg á mörkunum því þá rétt náði að grána á jörð eftir dálitla snjómuggu hér í borginni.
Aðfangadagsveðrið í ár er nú komið inn. Dálítil snjókoma og ekkert sólskin. Hitinn um 2 stig og þá hlýrra fyrri partinn en seinni partinn. Áttin var austlæg, hvorki hvöss né hæg. Snjór lá yfir jörðu um miðnætti, ekki mikill og farinn að bráðna hér og þar og því ekki alhvítt. Einkunn dagsins var 3 stig, sem er kannski heldur í strangara lagi en ekkert við því að gera.
Svo óska ég bara öllum lesendum gleðilegs jólaveðurs yfir hátíðirnar.
Vísindi og fræði | Breytt 25.12.2010 kl. 11:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)