7.2.2010 | 21:10
Hitinn á jörðinni í janúar
Það hljómaði dálítið sérkennilega þegar fréttir bárust af því að nýliðinn janúarmánuður hafi verið sá heitasti sem mælst hefur á jörðinni, ekki síst vegna óvenjumikilla vetrarkulda beggja vegna Atlantshafsins á sama tíma. Þær upplýsingar sem núna liggja fyrir um meðalhitann í janúar eru fengnar með gervihnattamælingum á hita lofthjúpsins. Það verður svo í seinni hluta mánaðarins sem fréttir munu berast af hita jarðarinnar þar sem stuðst er við hefðbundnar veðurathuganir á jörðu. Væntanlega verður ekki mikill munur á niðurstöðunum en þó er tæplega hægt að lofa fyrirfram hitameti samkvæmt þeim gögnum.
Myndin hér að ofan sýnir hvað var að gerast í hitafari jarðar í janúar samkvæmt gervihnattamælingum frá RSS (Remote Sensing System) og er engu líkara en jörðin sé alveg rauðglóandi á köflum. Annars sýna litirnir frávik frá meðalhita og koma þarna vel fram þær hitafarslegu öfgar sem áttu sér stað janúar. Kalt belti hringar sig nánast um norðurhvelið í gegnum Bandaríkin og Evrópu og áfram til Síberíu þar sem kuldarnir virðast hafa verið mestir. Mesta jákvæða hitafrávikið er við Kanada og Grænland og njótum við góðs að því hér á landi. Mjög hlýtt svæði er einnig í Norður-Afríku og áfram inn í Asíu. Við miðbaug og á suðurhveli eru öfgarnar minni en þó yfirleitt hlýtt.
Hitafrávik þessa mánaðar frá janúar-meðaltali áranna 1979-1998 mældist +0,64 °C, samkvæmt RSS og hefur ekki mælst meira í janúar frá upphafi gervitunglaathuganna árið 1979. Fyrra metið var frá 1998, sem er eitt heitasta árið sem mælst hefur og gefur þetta því vísbendingar um að árið 2010 geti mögulega orðið enn heitara. Eins og gerðist árið 1998 er það aðallega hinn hlýji El Nino straumur í Kyrrahafi sem er talinn bera ábyrgðina á þessu hitafari, að viðbættri þeirri hægfara undirliggjandi hlýnun sem á sér stað vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa. Sá El Nino sem nú veður uppi er þó ekki enn talinn eins öflugur og varð árið 1998 en sá hefur stundum hefur verið kallaður Super-El Nino.
Það sem kemur kannski á óvart, er að norðurhvelið hefur lagt meira af mörkunum til þessa óvenjulegu hita á jörðinni, en þrátt fyrir frost og snjókomur í mörgum af fínustu höfuðborgum vesturlanda var hitinn á norðurhveli nefnilega 0,80 °C yfir meðallagi, á meðan hitinn á suðurhveli var ekki nema 0,47°C yfir meðallaginu. Grænlendingum ætti þó ekki að koma þetta á óvart þar sem hitinn hefur sumstaðar verið 4-5 gráðum ofan meðallags og ekki er menn hressir í rigningunni í Vancouver þar sem á að halda vetrarólympíuleika. Við hér í Reykjavík sættum okkur hinsvegar alveg við þær 2,9 gráður sem voru umfram meðalhita áranna 1961-90, nema kannski einstaka skíðamaður.
- - - - -
Myndin sem fylgir er fenginn af heimasíðu Remote Sensing System: http://www.remss.com/msu/msu_data_monthly.html?channel=tlt
Velja þarf Anomaly á viðeigandi stað til að fá þessa mynd upp.