Árlegt hafíshámark á norðurhveli

Eins og venjulega um þetta leyti árs má gera ráð fyrir að því að hafísútbreiðsla vetrarins á Norðurhveli hafi náð sínu hámarki og því kominn tími á að rýna aðeins í stöðu mála enda stöðug hafísvöktun hér í gangi. Í stuttu máli má segja að hámarkshafísmagnið á norðurhveli jarðar hafi verið mjög nálægt hámörkum síðustu tveggja vetra, nokkru meira en veturna þrjá þar á undan en samt vel undir meðallagi frá þeim tíma er nákvæmar útbreiðslumælingar hófust árið 1979.

Norðurskautsís línurit

Útbreiðslumynstur hafíssins frá ári til árs getur verið nokkuð misjafnt þótt umfangið sé svipað. Það má meðal annars sjá á þessum myndum hér að neðan. Til vinstri sést hámarksútbreiðslan í byrjun mars 2009 en til hægri er hafísútbreiðslan 9. mars 2010 borin saman við meðallag áranna 1979-2000.

hafís 2009-2010

Hér sést t.d. að mjög lítið hefur verið um hafís í kringum Nýfundnaland og eins og undanfarin ár hefur ís verið í minna lagi á Barentshafinu sem þýðir að vetrarhörkur þessa vetrar hafa ekki náð til þessara svæða. Við Austur-Grænland og á okkar svæði er ekkert óvenjulegt að gerast en nokkuð mikill ís er hinsvegar inn af Eystrasalti þar sem langvarandi kuldar hafa verið ríkjandi, einnig er ísinn yfir meðallagi Kyrrahafsmegin suður af Beringssundi. Norður-Íshafið sjálft er svo auðvitað frosið stranda á milli eins og venjulega um veturinn ásamt hafsvæðunum við Norður-Kanada en það eru síðan þessi svæði sem skipta máli þegar kemur að því að skoða hvað bráðnar yfir sumartímann því allt annað hverfur hratt og örugglega þegar kemur fram á vorið, nema kannski ísinn við Austur-Grænland.

Ástand og horfur
Veðurfar þessa vetrar á norðurhveli hefur verið nokkuð óvenjulegt og eindregið, því mjög kalt hefur verið víða í Evrópu og Bandaríkjunum. Á Norður-Íshafinu hefur hiti þó verið yfir meðallagi en sérstaklega hefur verið hlýtt á heimskautasvæðum Kanada og vestanverðu Grænlandi. Svokölluð heimskautahringrás (Arctic Oscillation) hefur verið í óvenjusterkum neikvæðum fasa sem lýsir sér meðal annars í háum loftþrýstingi og því litlum lægðargangi yfir heimskautaísnum. Þetta er talið valda því að ísinn hafi fengið góðan frið til að styrkjast í vetur í stað þess að brotna upp og hrekjast með vindum út úr pólasvæðinu. Af þessum ástæðum hefur Bandaríska hafísrannsóknastofnunin NSIDC gefið það út að heimskautaísinn gæti orðið lífseigari í sumar en annars og því ólíklegt að dramatísk bráðnun muni eiga sér stað svipað og átti sér stað sumarið 2007. Við sjáum þó til með það, veður og vindar fram á sumarið munu skera úr um þetta. Ég gæti þó haldið að ísinn við Kanada, Norður-Ameríkumegin, sé nokkuð veikburða eftir mikil vetrarhlýindi þar.

Annars er kannski best að vitna beint í Bandarísku hafísspekingana:
„ … the AO has a strong effect on Arctic sea ice motion. The pattern of winds associated with a strongly negative AO tends to reduce export of ice out of the Arctic through the Fram Strait. This helps keep more of the older, thicker ice within the Arctic. While little old ice remains, sequestering what is left may help keep the September extent from dropping as low as it did in the last few years. Much will depend on the weather patterns that set up this spring and summer.“ (http://nsidc.org/arcticseaicenews/)


Bloggfærslur 13. mars 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband