13.4.2010 | 21:46
Goslokaskýrsla 1
Uppærsla 14. apríl: Vegna nýrra atburða skal lýta á þessa skýrslu sem yfirlit um það sem gerðist á Fimmvörðuhálsi. Augljóslega halda eldsumbrot áfram, en á nýjum stað og undir jöklinum. Ég kalla þetta því nú Goslokaskýrsla 1, og var upphaflega skrifuð svona að kvöldi 13. apríl:
- - - -
Nú er gosinu lokið og þjóðin getur farið að snúa sér að öðrum viðfangsefnum. Ýmsir munu þó kannski sakna gossins og jafnvel vonast eftir einhverri endurkomu. Slíkt er auðvitað ekki útilokað. Ég velti því fyrir mér í upphafi gossins hvort það stæði undir væntingum, að hluta til hefur það gert það. Þetta var allan tíman lítið gos en tilkomumikið í návígi, ekki síst vegna umgjarðarinnar í þessu mikla landslagi. Hraunfossarnir voru skemmtileg nýjung í eldgosum hér á landi og buðu upp á mikið sjónarspil, einnig var það spennandi uppákoma þegar ný sprunga opnaðist nánast undir fótunum á glápandi fólki. Mesta mildi þó að það varð engum að fjörtjóni.
Hraunrennslið. Vegna staðsetningar á eldsumbrotunum var strax ljóst að hraunrennslið færi niður hyldjúp gilin fyrir neðan. Ég var ekki einn um að velta fyrir mér hvað gerðist ef hraunið næði niður á Krossáraura og kannski mynda stíflur og jafnvel uppistöðulón. Það hefði verið mikil breyting á umhverfinu og aðstæðum í Mörkinni en gekk ekki eftir. Hraunframleiðslan var aldrei nógu mikil vegna smæðar eldgossins, hraunið var mjög seigt í sér og átti alltaf erfitt með að ákveða hvort það ætti að falla í Hrunagil eða Hvannárgil sem kom í veg fyrir samstilltan hraunstraumi í eina átt. Svo kom það líka í ljós að hraunið hrúgaðist bara upp í giljunum eins og þegar möl er sturtað niður af vörubíl og rann lítt áleiðis er niður var komið. Ef til vill kólnaði hraunið í fossunum of mikið til að það næði að renna áfram þar í neðra.
Nýja fellið, 82 metra hátt, hefur ekki fengið nafn en nafngiftin mun vera stödd í nefnd. Það er þó betra að ákveða nafnið eftir að gosið er búið. Það flækir aðeins málið að þetta er ekki bara eitt fjall því nýrri gígurinn var byrjaður að hlaða upp nýju eldfelli en átti samt nokkurt verk óunnið.
Nú virðast margir ganga að því sem vísu að Kötlugos sé rétt handan hornsins. Slíku verður að sýna þolinmæði. Ég get ekki séð að menn viti almennilega hvernig gos í Eyjafjallajökli geti komið af stað gosi í nágrannaeldstöðinni Kötlu eða hvort slíkt samband sé yfir höfuð til staðar. Allavega virðist ekkert benda til atburða þar núna. Katla gýs kannski bara þegar henni sýnist en gerir væntanlega einhver boð á undan sér.
Næsta gos. Það er auðvitað erfitt að spá fyrir um eldgos. Ég hef þó reynt það af veikum mætti í árlegum spádómum hér á blogginu. Síðasta spá mín frá liðnu hausti kom út skömmu áður jarðskjálftavirkni tók sig upp að nýju undir Eyjafjallajökli og því hafði ég því litla trú á að næsta eldgos yrði þar, eða einungis 4% líkur. Miklu meiri trú hafði ég á Heklu, Grímsvötnum og jafnvel Kötlu. Ný og örugglega jafn hæpin spá verður sjálfsagt gerð næsta haust.
Að lokum kemur hér mynd frá frá því er goshátíðin stóð sem hæst.
![]() |
Eldgosinu á Fimmvörðuhálsi lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 14.4.2010 kl. 08:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)