Gígjökulsbreytingar

Gígjökull í norðanverðum Eyjafjallajökli hefur hopað mikið á síðustu árum og hefur þróun hans verið í góðum takti við hitafarsbreytingar hér á landi. Miklar breytingar á landslagi fylgja framskriði og hopi jökla en Gígjökull og umhverfi hans er einmitt gott dæmi um það. Eldgosið sem nú er uppi flýtir mjög fyrir hopi jökulsins enda engin furða að breytingar verði á skriðjökli og umhverfi hans þegar gos hefst í gígnum sem jökullin kenndur við.

En það sem ég ætla að bjóða upp á núna er myndaröð þar sem ég reyni að endurskapa Gígjökul og nánasta umhverfi aftur í tímann frá hann var stærstur fyrir allavega 100 árum. Myndin sem unnið er með er fengin af vefmyndavél Vodafone á Þórólfsfelli þann 17. apríl.

Gígjökull 1900

Um aldamótin 1900 gæti Gígjökull hafa litið svona út en undir lok 19. aldar voru jöklar á Íslandi stærstir eftir landnám. Í upphafi Íslandsbyggðar er ólíklegt að skriðjökullinn hafi náð niður á láglendi vegna smæðar og umhverfið hefur sjálfsagt verið gróskumeira en nú. Þegar jökullin skreið fram á litlu-ísöldinni, ruddi hann á undar sér jökulgarði sem sést þarna framan við sporðinn og gróf sig jafnframt niður í sandinn.

Gígjökull 1980

Um 1980 leit jökullin einhvernvegin svona út. Eftir því sem jökullin hopaði kom lónið smám saman í ljós, en þar hafði jökullinn einmitt sótt efniviðinn í jökulgarðana þegar hann skreið fram. Á þessum árum náði Gígjökull reyndar að skríða dálítið fram eins og margir aðrir jöklar á landinu.

Gígjökull 2009

2009, fyrir gos.  Á síðustu 10 árum hefur mikil breyting orðið á Gígjökli þannig undir það síðasta náði bara hluti hans niður að lóni. Kletturinn hægra megin við jökulsporðinn kom í ljós fyrir nokkrum árum en vinstra megin við hann virðist vera þröngt gil sem jökullin leitar í. Lónið er þarna í öllu sínu veldi og leit þarna ekki út fyrir að það myndi fyllast nema á löngum tíma.

Gígjökull 2010

2010. Með gosinu í Eyjafjallajökli hafa jökulhlaup úr toppgígnum náð að fylla lónstæðið af aurframburði, krapa og gosefnum þannig að lónið er horfið og kemur ekki aftur fyrr en jökullinn nær að ryðjast fram og hörfa til baka á ný, sem mun væntanlega ekki gerast í náinni framtíð. Neðsta jökultungan hefur mikið látið á sjá en er þó enn til staðar. Mikið flóðvatn hefur runnið innanundir og meðfram jöklinum og gert hann þannig veikari fyrir væntanlegri sumarbráðnun. Síðustu fréttir segja að hraun sé farið að renna undir skriðjöklinum en hvort það ná nái alla leið niður og koma út undan jökli er ómögulegt að segja en það þýddi auðvitað enn meiri breytingar á landinu þarna.


Bloggfærslur 25. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband