5.4.2010 | 14:58
Ístoppur með dýfu
Ég var víst búinn að skrifa um það fyrir nokkrum vikum að hafísshámarki vetrarins hafi verið náð á Norðurslóðum en það gerist venjulega um miðjan mars. En í stað þess að hafísútbreiðslan hafi byrjað að dragast saman eins og venjulega seinni hlutann í mars, hélt hún áfram að aukast. Þrátt fyrir þetta má ekki draga of miklar ályktanir af þessu og segja að hafísnum sé hér með borgið um aldur og ævi. Þau svæði sem valda þessari síðbúnu aukningu eru fyrir utan Norður-Íshafið sjálft svo sem Beringshafið, Barentshafið og jafnvel Eystrasaltið. Norðurpólsísinn getur líka verið að brotna upp eins og oft á þessum árstíma og fer því meira fyrir honum.
Þessi toppur á hafíssútbreiðslunni er sennilega skammvinnur og brátt muni góð dýfa taka við. Hafísmagnið sveiflast talsvert milli vikna og mánaða vegna veðuraðstæðna og hefur lengst af síðustu ár verið vel undir meðallagi, nema núna akkarúat í nokkra daga og þarf það ekki að þýða neitt sérstakt.
Vegna mikilla vetrarhlýinda í Norður-Kanada og við Vestur-Grænland er ástandið á ísnum þar sennilega óvenju bágborið núna og góðar líkur á því að Norðvesturleiðin opnist upp á gátt síðla sumars. Meira um það þegar þar að kemur.
- - - - -
Úr því að í fréttinni hér var minnst á Grænlenska útvarpið KNR, þá má það alveg koma fram hér að KNR - Kalaallit Nunaata Radioa er einnig sjónvarpsstöð og fengu þeir nýtt og aldeilis fínt lógó fyrir ári síðan. Hver annar en ég sjálfur skyldi hafa teiknað lógóið?
![]() |
Hafís eykst á norðurslóðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |