29.5.2010 | 12:46
Er að spá í hvað ég á að kjósa
Þegar þetta er skrifað er runninn upp mikill kosningadagur sem gæti orðið sögulegur. Ég er ekki alveg búinn að ákveða hvað ég á að kjósa en ólíkt mörgum finnst mér ýmislegt boðlegt í boði. Á maður að taka grínið á þetta eða láta alvöruna ráða hvernig ég greiði atkvæði?
Sjálfur er ég nokkuð hrifinn af léttu gríni og gæti vel hugsað mér að kjósa rússneska lagið sem er mjög harmrænn og fallegur tregasöngur en það þarf að hlusta á það með húmorinn í huga. Skemmtilegustu lögin duttu þó út í forkeppninni að mínu viti, Hollenska Geirmundarsveiflan hefði alveg mátt vera með og líka Slóvenska lagið sem blandaði saman þjóðlagahefð og gallabuxnarokki og virkaði bara stórskemmtilega á mig. Finnsku harmoníkustelpurnar voru líka bara skemmtilegar og hefðu gjarnan mátt vera með. Króatísku þokkadísirnar duttu óvænt út en þær voru með flott lag eins og sú sænska, kannski vantaði einhvern afgerandi kraft í þessi atriði þegar á sviðið var komið. Slóvakíska skógardísin náði því miður ekki að halda lagi í undankeppninni og varð því lítt ágengt.
Annars er athyglisvert hvað vönduð lög koma frá Kákasuslöndunum og þeim framandi slóðum, miklar og flottar skvísur með alveg hörkulög, ekki síst sú fyrsta sem stígur á svið en það er hin Azerbajdaníska Safura sem drip droppar með miklum tilþrifum. Frakkarnir eru alltaf flottir í Eurovision og nú er það hin blakki Jessi Matador sem ætlar að trylla lýðinn með miklu Ola Ole-stuði. Þýskaland teflir fram líflegri stelpu sem syngur með sérstökum kokney-enskuhreim. Grikkir eru að venju með ógurlega flugeldasýningu og drumsbuslátt til heiðurs Grikkjanum Zorba og eru alltaf sigurstranglegir.
Ýmis önnur lönd mætti telja upp sem gætu hugsanlega unnið keppnina þó framlög þeirra höfði ekki öll til mín. Við verður svo að gera okkur grein fyrir því að Íslenska eldfjallið - Hera Björk, gæti stolið senunni með þeim afleiðingum að við vinnum keppnina. Það eru meiri líkur á því nú í ár en í fyrra því þá var alltaf vitað að norska lagið myndi vinna, sem það og gerði.
Hvað ég kýs verður bara að ráðast í kvöld. Í dag mun ég hinsvegar taka þátt í öðrum kosningum þar sem málið snýst um að kjósa í borgarstjórn. Sumir virðast þó misskilja þær kosningar - telja að þar eigi að kjósa það sem er skemmtilegast, svona eins og það sé verið að kjósa í skemmtinefnd.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)