22.6.2010 | 22:42
Hvað varð um rokið í Reykjavík?
Þegar þetta er skrifað er hægur vestan-andvari hér í Reykjavík. Það er svo sem ekkert óvenjulegt, svona var þetta líka í gær og svona verður þetta jafnvel næstu daga ef mark er takandi á veðurspám. Jafnvel hér í Vesturbænum hreyfast varla laufin á trjánum en Vesturbærinn er í hugum margra frekar vindasamur staður miðað við önnur hverfi í borginni. En svona hefur þetta ekki alltaf verið því þegar ég var að alast upp var öldin önnur. Þá gnauðaði vindurinn árið um kring og á veturna mátti varla almennileg lægð koma upp að landinu öðruvísi en að þakplötur tækust á loft og flugu jafnvel inn um stofuglugga hjá saklausu fólki sem sat kannski inni hjá sér við kertaljós eftir að rafmagnskerfi borgarinnar var slegið út af laginu.
En af öllum léttleika slepptum þá virðist það vera staðreynd að meðalvindhraði í Reykjavík hefur mjög farið minnkandi síðustu áratugi. Til að skoða þetta almennilega þá teiknaði ég upp línurit út frá gögnum Veðurstofunnar þar sem ég ber saman meðalvindhraða í Reykjavík, Akureyri og á Keflavíkurflugvelli frá árinu 1961.
Á línuritinu má sjá að í upphafi tímabilsins var vindurinn í Reykjavík á sama róli og suður á Keflavíkurflugvelli eða um og yfir 6 metrum á sekúndu sem nær því að vera 4 vindstig á gamla skalanum eða stinningsgola. Síðan skiljast leiðir því á sama tíma og vindur helst að mestu óbreyttur suður á velli þá hægist vindur í Reykjavík smám saman, ekki síst eftir aldamótin og er nú svo komið að meðalvindhraðinn í Reykjavík er ekki nema rétt rúmlega 4 metrar á sekúndu sem gera þrjú vindstig eða golu. Þess má geta að árið 2009 var meðalvindhraði í Reykjavík 3,9 m/s.
4 metrar á sekúndu er álíka mikill vindur og hefur verið að meðaltali á hægviðrisstaðnum Akureyri á tímabilinu og má því segja að vindurinn í Reykjavík hafi þróast frá því að vera á pari við Keflavíkurflugvöll um 1961 og niður í það sem tíðkast á Akureyri. Að vísu hefur vindurinn á Akureyri einnig verið mjög hægur allra síðustu árin, en á tímabilinu í heild er ekki að sjá þar sömu þróun og í Reykjavík.
Miðað við að vindur á Keflavíkurflugvelli hefur ekki minnkað frá 1961 þá hljóta það að vera lókalaðstæður hér í Reykjavík sem valda hægari vindi. Auðvelt er að giska á að aukin byggð og aukinn trjávöxtur í borginni hafi þarna mest áhrif. Veðurstofan hefur verið á sömu hæðinni fyrir ofan Bústaðaveg frá árinu 1973 en frá þeim tíma hefur allt umhverfi borgarinnar þróast talsvert.
Merkilegt er samt hvað meðalvindhraðinn fellur á árunum 1999-2001 og hefur verið hægur síðan. Árið 1999 var hætt að miða við gamla vindstigakerfið og metra á sekúndukerfið tekið upp. Kannski var þá bara settur upp splunkunýr metra á sekúndumælir sem aldrei hefur náð sér á strik. Varla getur það annars verið. Reyndar ættu flestir borgarbúar að vera sammála því að öll ár þessarar aldar hafa bara verið nokkuð góð veðurfarslega séð í Reykjavík, og eins og annarstaðar á landinu hafa þau ekki síst verið hlý.
Vísindi og fræði | Breytt 23.6.2010 kl. 15:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)