18.7.2010 | 14:49
Á Neskaupstað
Á ferðalagi um landið í síðustu viku kom ég við á Neskaupstað. Fyrir mig svona persónulega var þetta nokkuð stór stund því að Neskaupstaður var eini stóri þéttbýlisstaðurinn á Íslandi sem ég hafði ekki heimsótt áður. Staðurinn er heldur ekki í neinni alfaraleið en til að komast þangað þarf fyrst að fara í gegnum Reyðarfjörð, síðan Eskifjörð, þaðan upp svimandi háan fjallveg og í gegnum lítil og þröng göng í Oddskarði. Sömu leið þarf síðan til að komast til baka. Þetta ferðalag er þó vel þess virði enda landslagið stórbrotið, ekki síst þegar síðdegissólin keppir við austfjarðarþokuna um völdin.
Þegar komið var til Neskaupstaðar fannst mér fara vel á því að setja upp Kúbuhattinn góða sem ég er þó alla jafna ekki með á höfðinu. Neskaupstaður hafði lengi vel mikla sérstöðu meðal annarra þéttbýlisstaða því þar horfðu menn jú í austur í leit að pólitískum lausnum enda staðurinn oft kallaður Litla-Moskva. Á meðan Neskaupstaður var sjálfstætt sveitarfélag fór Alþýðubandalagið með völdin og menn skömmuðust sín ekkert fyrir sinn sósíalisma. Kannski skiptir þarna máli að Neskaupstaður er austasti þéttbýliskjarni landsins og þar með lengst frá Ameríku. Þessu er hinsvegar öfugt farið vestur í Keflavík þar sem Ameríkuáhrifin hafa verið allsráðandi.
Neskaupstaður er nú hluti af hinu sameinaða sveitarfélagi Fjarðabyggð. Staðurinn getur því ekki lengur státað af sinni pólitísku sérstöðu og kannski vilja íbúar lítið kannast við sína pólitísku fortíð. Kannski voru það áldraumarnir sem fór með hugsjónirnar. Allavega virðast tímarnir breyttir og kannski hefur menningarástandinu hnignað eitthvað í leiðinni, en staðurinn er eiginlega þekktastur í dag meðal yngra fólks fyrir sína árlegu þungarokkshátíð Eistnaflug.
Annars veit ég ekki mikið meira um þennan stað en man þó eftir snjóflóðinu mikla á áttunda áratugnum. Hinsvegar veit ég að á landbyggðinni er ég alltaf aðkomumaður og á eiginlega aldrei erindi út fyrir borgina nema sem ferðamaður. Ég get varla sagt að ég hafi stuðlað að framgangi neinna mála á landsbyggðinni með vinnuframlagi, allavega ekki þannig að ég hafi þurft að mæta á staðinn. Á Neskaupstað var ég þó mættur sem ferðamaður og sem slíkur gerði ég vonandi eitthvað gagn.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 14:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)