1.8.2010 | 22:42
Meðalhitametið jafnað í Reykjavík
Þá er það orðið ljóst að nýliðnum júlí tókst að jafna mánaðarmetið frá 1991 sem er 13,0 stig. Þegar þetta er skrifað hefur Veðurstofan að vísu ekki birt sitt yfirlit en fylgjast mátti með þessari metjöfnun í beinni útsendingu á bloggsíðu Sigurðar Þórs. Þessi metjöfnun er auðvitað merkilegt í ljósi þess að júní var metmánuður hér í Reykjavík þannig að nú stefnir allt í langhlýjasta sumar sem hér hefur mælst. Það er eiginlega svo komið að það telst varla til tíðinda lengur að hitamet séu slegin í Reykjavík að sumarlagi því fyrir utan þessi met þá eru ekki nema sjö ár síðan mánaðarmetið fyrir ágúst var slegið og hámarkshitinn í Reykjavík hefur verið tvíbættur frá aldamótum. Allnokkrir sumarmánuðir hafa síðan verið mjög nálægt metum undanfarin ár.
Júlí 1991
Þessi hlýindi eru allt annað en það sem gerðist síðustu áratugi síðustu aldar. Júlí 1991 með sinn 13 stiga meðalhita er t.d. alls ekki dæmigerður fyrir hitafar síns tíma enda voru þá liðin 31 ár frá því einhver mánuður náði 12 stiga meðalhita í Reykjavík. Hinsvegar hafa sjö mánuðir náð 12 stigum hér í Reykjavík frá aldamótum. Júlí 1991 var enda sérstakur því þá gekk yfir landið óvenjuöflug hitabylgja sem skildi eftir sig slóð hitameta víða um land. Í dag þarf ekki öfluga hitabylgju ættaða langt sunnan úr löndum til að slá met, engu líkara er að hitinn sé búinn að koma sér hér fyrir og virðist búa bæði í loftinu og sjónum.
Júlí 1936
En það var líka hlýtt hér í gamladaga. Hin rómuðu hlýindi á fjórða til sjötta áratug síðustu aldar standa alveg undir nafni. Margir sumarmánuðir á því tímabili jafnast nánast á við þá hlýjustu frá núverandi hlýindaskeiði þó að meðaltali sé heldur hlýrra nú en þá.
Á hlýja tímabilinu 1930-1965 voru hlýindin ekki eins stöðug og þau eru í dag og það hefur auðvitað áhrif á meðalhitann. Annars getur verið vandamál að bera saman mælingar frá því fyrr á tímum því mæliaðstæður og mælitæki eru ekki þau sömu. Þannig mældist t.d. í Reykjavík 13,2 stiga meðalhiti í júlí blíðusumarið 1936 og auglýstur þannig sem metmánuður eins og kemur fram hér í gamalli frétt í Morgunblaðinu. Þessi mánuður frá 1936 er í rauninni ennþá metmánuður því ekki hefur mælst hærri mánaðarhiti í Reykjavík, en hitamælingar voru þá gerðar á þaki Landsímahússins við Austurvöll. Júlí 1936 er þó ekki talinn sá heitasti þegar búið er að leiðrétta hann miðað við vandaðri mælingar sem gerðar eru í dag uppá Veðurstofuhálendinu við Bústaðaveg. Eftir þá leiðréttingu er hann skráður uppá 12,8 stig í meðalhita, en hvort það sé akkúrat rétt tala er ómögulegt að segja.
Nú er bara spurning hvort núverandi hlýindi séu komin til að vera. Sennilega verður hlýtt áfram næstu árin en hæpið er að gera ráð fyrir að kaldari tíð tilheyri alveg fortíðinni. Kannski að maður spái dálítið í það næst.
Einkunnagjöf
Að lokum má svo nefna að samkvæmt mínu vísindalega veðurgæðamati þá fékk nýliðinn júlímánuður 5,2 stig sem er góð einkunn en júlí 1991 fékk 5,1 stig. Þetta er samt ekkert miðað við einkunnina sem júlí fékk í fyrra, 5,8 stig en það var besta einkunn sem ég hef gefið nokkrum mánuði. Nánar um veðurskráningar og júlí í fyrra er hér: Hversu gott var góðviðrið í júlí?