10.9.2010 | 21:39
Steinn Odds sterka í Ármúlanum
Í borgarumhverfi okkar í dag má sumstaðar finna merkilega steina og aðra orginal smábletti sem sloppið hafa frá því að verða malbiki og byggingarframkvæmdum að bráð. Einn þessara staða er vel falinn inn af afgirtu bílastæði milli Ármúla og Lágmúla og tilheyrir lóð VÍS-hússins að Ármúla 3. Þessu komst ég að við lestur greinar eftir Pál Ásgeir Ásgeirsson í tímaritinu Ský þá er ég flaug skýjum ofar í Fokker vél á dögunum. Grein þessi fjallaði um ýmsar sérstakar persónur sem settu svip sinn á bæinn á liðinni öld en meðal þeirra var Oddur sterki af Skaganum, eða Oddur Sigurgeirsson, sem var uppi á árunum 1879-1953. Það sem vakti helst áhuga minn í greininni er að þar er fjallað um myndarlegan stein sem Oddur þessi mun hafa rist nafn sitt á, skýrt og greinilega, á áðurnefndum stað í Ármúlanum. Mér fannst þetta ekki síður áhugavert vegna þess að ég tel mig þekkja nokkuð vel til Ármúlans sem er nálægt mínum uppeldisstöðvum í Háaleitishverfinu þaðan sem ýmsir könnunarleiðangrar voru farnir um nágrennið á sínum tíma, til dæmis til að útvega hráefni í kofabyggingar eða þess háttar.
Það var því ekki um annað að ræða en að hafa upp á þessum steini sem ég og gerði. Eftir að hafa fundið steininn þurfti ég að ganga næstum heilan hring umhverfis hann áður en ég fann áletrunina en þar stendur stórum og skýrum stöfum: Oddur Sigurgeirsson þar undir ritstjóri, síðan með óljósara letri Harðjaxls og loks ártalið 1927. Letrið er dálítið falið bak við gróður en af ummerkjum að dæma virðist eitthvað vera um mannaferðir þarna og jafnvel að einhverjir hafi leitað sér skjóls enda skagar ein hlið steinsins dálítið fram eins og hallandi veggur. Sennilega hefur Oddur sjálfur lagst til hvílu við steininn oftar en einu sinni, allavega var þetta ekki fyrir honum hvaða steinn sem er.
Eftir að hafa ritað á klöppina á sínum tíma sendi Oddur þessa tilkynningu í Alþýðublaðið sem sjá má hér og birtist 9. mars 1927. Greinilega hefur Oddi ekki orðið að þeirri ósk sinni að áletraða stykkinu úr klöppinni hafi verið komið fyrir að gröf hans sem er í Fossvogskirkjugarði og ekki veit ég til þess að einhver hafi rekist á hann á kvöldgöngu í seinni tíð.
Í sínu lifanda lífi átti Oddur þessi annars við ýmist mótlæti að etja, hann lenti í höfuðslysi sem barn sem háði honum ætíð eftir það. Hann þótti skrítinn til máls og var stundum strítt af börnum þó sjálfur væri hann barngóður. Hann var harðger sjómaður og verkamaður en þótti sopinn góður en seinni hluta ævinnar gat hann lítið sinnt líkamlegri vinnu. Hann leit þó stórt á sig og gaf meðal annars út tímaritið Harðjaxl og gat því titlað sig ritstjóra með sanni. Orðið Harðjaxl virðist samkvæmt tilkynningunni ekki hafa verið með í upphaflegu árituninni á steininn og sennilega hefur Oddur bætt því við síðar.
Eftirminnilegasta uppátæki hans var sennilega þegar hann dubbaði sig upp í klæðnað að hætti fornkappa, sjálfsagt með aðstoð einhverra grallara og heilsaði þannig upp á kónginn á Alþingishátíðinni 1930. Við það tækifæri var tekin mynd af þeim heiðursmönnum og einnig gefið út sérstakt litprentað kort af Oddi í fullum herklæðum með textanum: Oddur Sigurgeirsson fornmaður.
- - - - -
Nánar má lesa um steininn og Odd sterka á vefnum Ferlir: http://ferlir.is/?id=7832
auk áðurnefndrar greinar í tímaritinu SKÝ.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)