5.9.2010 | 10:19
Tónlistarhúsið 2006-2010
Einn af föstum árlegum dagskrárliðum á þessari bloggsíðu er að birta ljósmynd af tónlistarhúsinu séð ofan af Arnarhóli. Hverja mynd hef ég tekið um hádegi einhvern bjartviðrisdaginn síðustu dagana í ágúst nema ein sem var tekin 1. september. Myndatakan nær aftur til ársins 2006 þegar gamli Faxaskálinn stóð enn uppi en þá voru framkvæmdir á svæðinu nýhafnar.
Tónlistarhúsið hefur breytt mikið um svip frá því í fyrra því nú er glerísetning hafin og búið að raða upp hinum miklu gluggakubbum á suðurhlið hússins sem blasir við frá Arnarhóli. Það er síðan til marks um skrykkjótta byggingarsögu tónlistarhússins að allt þetta kubbaverk þarf að taka niður og raða saman upp á nýtt vegna smíðagalla. Þetta þarf að gerast svo að gluggaumgjörðin standist þau verstu óveður sem hér geta skollið á. Ekki væri gott ef dýrindis glerverkið sáldraðist um allan bæ í einhverju rokinu. Þetta vesen mun þó ekki kosta okkur skattborgarana neitt auka, því mistökin skrifast á kínversku undirverktakana og húsið mun eftir sem áður opna í maí á næsta ári. Þetta tefur þó frágang að utanverðu þannig að þegar fyrstu lúðrar hljóma næsta vor og hörpusláttur hefst í húsinu verður gluggauppsetningu ólokið. Húsið eins og það lýtur út í dag er því einskonar forsýning þess sem verður.
En hér er myndasyrpan: