Hvar verður næsta eldgos á Íslandi?

Eyjafjallajökull 2010

Eins og ég hef gert árlega í minni bloggtíð að hausti til ætla ég að leggja mitt mat á það hvar næsta eldgos verður á Íslandi. Sem fyrr eru þessar vangaveltur studdar hæfilega lítilli þekkingu á undirheimum landsins og settar fram meira af kappi en forsjá. Þær eru þó ekki verri en svo að fyrir ári síðan taldi ég mestar líkur á því að næsta gos yrði í Grímsvötnum eins og einmitt varð raunin. Kannski þurfti þó ekki mikla getspeki til. Prósentutölurnar í upptalningunni hér að neðan vísa í hversu miklar líkur ég tel á að næsta gos verði í viðkomandi eldstöð og eru þau líklegustu talin fyrst. Annað mál er svo hvenær næsta gos verður hér á landi. Kannski mun ekkert gjósa hér á næstu árum en kannski verða þau mörg og mikil. Greiningin kemur hér og undir öllum textanum er kort til frekari glöggvunar.

30% Katla er mest umtalaða eldstöðin um þessar mundir og vermir nú efsta sætið á þessum lista í fyrsta skipti. Aukin skjálftavirkni og smágert gos í sumar benda til þess að eitthvað stærra geti verið í undirbúningi. Þótt lítið sé hægt að stóla á hefðir þá segir sagan að Kötlugos fylgi gosi í Eyjafjallajökli. Óvenju langt er líka liðið frá síðasta gosi í Kötlu en samt er ekkert öruggt og ekki er hægt að útiloka að þetta 93ja ára goshlé fram að þessu sé bara hálfnað. Kannski mun koma í ljós í vetur hvort óróinn undanfarið fjari bara út eða endi í almennilegu Kötlugosi. Samkvæmt annálum verða sterkir jarðskjálftar nokkrum klukkutímum fyrir gos sem fara ekki framhjá neinum í grenndinni. Slíkir skjálftar ef þeir verða eru auðvitað gagnleg viðvörun fyrir þau læti og flóð sem munu fylgja fyrstu stigum gossins.

27% Hekla. Fátt virðist vitað hvað er að gerast í Heklu annað en að hún hefur verið mjög virk síðustu 40 ár, gosið nánast á 10 ára fresti og auk þess talin tilbúin í gos. Samkvæmt 10 ára hefðinni hefði Hekla átt að gjósa árið 2010 eða fyrri part 2011 en ekkert bólar þó á slíku. Hekla lætur ekkert vita af sér fyrr en gos er í þann veginn að hefjast, en það mun stafa af því að kvikuþróin er djúpt í jörðu og lítið hægt að fylgjast með. Þetta fræga eldfjall er til alls líklegt þótt 10 ára reglan virðist vera að bregðast. Kannski ætlar Hekla bara aftur í sitt gamla far og gjósa stærri gosum einu sinni til tvisvar á öld nema eitthvað annað og meira sé í undirbúningi.

16% Grímsvötn. Þessi mikilvirka eldstöð er fastur áskrifandi af þremur efstu sætunum hér, en þar sem Grímsvötn hafa nýlokið sér af eru ekki mjög miklar líkur á næsta gosi þar. Líklega mun samt gjósa þarna á ný á næstu 10 árum og því er þetta spurning um hvort aðrar eldstöðvar skjótist inn á milli. Annars var Grímsvatnagosið í vor merkilega öflugt þótt það hafi staðið stutt og gæti verið til merkis um aukna virkni undir miðju landinu miðað við seinni hluta 20. aldar.

7% Bárðarbunga er stór megineldstöð með stórri öskju sem hulin er jökli. Útfrá henni eru gossprungur sem ná út fyrir jökulinn í suðvestur og norðaustur. Hamarinn í vesturhluta Vatnajökuls tengist eldstöðinni beint eða óbeint en þar hefur verið talsvert um skjálfta undanfarin ár og jafnvel smágos í sumar. Síðustu gos tengd Bárðarbungukerfinu sem vitað er um voru norðan Tungnárjökuls seint á á 7. áratug 19. aldar. Bárðarbunga er næst miðju heita reitsins á landinu og hefur af og til verið að minna á sig á síðustu árum með jarðskjálftum sem gætu verið undanfari eldgoss.

6% Askja og nágrenni eru alltaf inní myndinni. Eins og víða annarsstaðar hefur orðið vart við jarðskjálfta síðustu ár þarna á svæðinu. Upptyppingaóróinn var til dæmis mikið í fréttum fyrir nokkrum árum, hann tengist þó kannski öðrum eldstöðvakerfum. Þá var rætt um mögulegt dyngjugos sem staði gæti staðið langtímum saman. Sennilega er einhver bið á meiriháttar Öskjugosi eins og varð á 19. öld. enda varla hægt að búast við svoleiðis nema á einhverra alda fresti. Smærri gos geta þó komið hvenær sem er samanber hraungosið 1961 sem hlýtur að teljast hin þægilegasta gerð af eldgosi og auk þess túristavænt.

5% Reykjanesskagi.
Það væri mikill merkisatburður ef gos kæmi upp á Reykjanesskaga jafnvel þótt ekki yrði um stórt gos að ræða. Ef gos hæfist þarna væri það til merkis um að 700 ára goshvíld væri lokið og framundan væri umbrotaskeið sem stæði með hléum í 300 ár eða svo, með allskonar afleiðingum og veseni. Reykjanesið er mikið jarðskjálftasvæði og þar hafa vissulega komið skjálftahrynur öðru hvoru. Flestir skjálftarnir tengjast þó gliðnun landsins frekar en hugsanlegum eldsumbrotum og því engin ástæða að óttast þó eitthvað hristist þarna. Hinsvegar þykjast menn þó sjá núna einhver merki um hæðarbreytingar sem benda til kvikusöfnunar, aðallega undir Krísuvíkusvæðinu. Meiriháttar hamfarir eru samt ólíklegar og varla þarf að koma til allsherjarýmingar höfuðborgarsvæðisins. Sennilega verður mesta umferðin í áttina að gosstöðvunum frekar en frá þeim, vegna forvitinna borgarbúa með myndavélar.

4% Suðurhálendið. Hér hef ég aðallega í huga sprungugos með talsverðu hraunrennsli sem fóðrað væri frá megineldstöðvunum Kötlu, Grímsvötnum eða Bárðarbungu. Þetta geta orðið meiriháttar gos samanber Skaftárelda og Eldgjárgosið. Væntanlega kæmu slík gos ekki án undirbúnings og mikillar tilfærsla kviku neðanjarðar sem færi varla framhjá vökulum vaktmönnum. Smærri og kurteisari gos geta þó kannski laumast í gegn án mikils undirbúnings. Lítið virðist þó vera að gerast þarna sem bendir til einhvers. Ef rétt er að eldvirkni landsins sé að aukast þarf samt að íhuga þennan möguleika.

5% Aðrir staðir mæta svo afgangi svo sem Vestmannaeyjar, Hengill, Öræfajökull, Mývatnsöræfi, Langjökulssvæðið og svo allir hinir staðirnir sem margir hverjir teljast frekar ólíklegir þótt þeir teljist til eldvirkra svæða. Sumstaðar er líka margt á huldu varðandi innri hegðun svæða, samanber Snæfellsnesið, en eins og Haraldur Sigurðsson skrifar um, þá mun vera eitthvað lítið um jarðskjálftamælingar þar.  

Næsta Gos 2011

 

- - - - - - - - - - - - - - -

Heimildir eru héðan og þaðan. Ljósmyndin sem fylgir er af Eyjafjallajökli, tekin 8. maí 2010.


Bloggfærslur 18. október 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband