12.11.2011 | 21:35
Um harmóníu og Þorláksbúð
Falleg hús gera fallega staði fallegri og að sama skapi gera fallegir staðir, falleg hús fallegri. Eitthvað í þessa veru las ég eitt sinn í bók eftir Trausta Valsson skipulagsfræðing. Tveir staðir voru nefndir sem dæmi: Þingvellir og Viðey, en á báðum stöðum standa hús sem fara vel hvort með öðru en skapa um leið gagnkvæma heild með landslaginu. Svona harmónía er ekki bara bundin við merkisstaði í sögu þjóðarinnar. Sveitabæir ásamt útihúsum geta farið afskaplega vel í blómlegum dölum og ekkert útilokar að annarskonar mannvirki svo sem virkjanir og brýr geti verið hin mesta staðarprýði ef rétt er að málum staðið.
En þá víkur sögunni að Skálholti, sem getur alveg talist einn af þeim stöðum þar sem húsin gera umhverfið fallegra og öfugt. Þar hafa ýmis mannvirki stór og smá staðið í gegnum tíðina enda lengi einn helsti höfuðstaður landsins. Skálholtskirkja nútímans er falleg bygging og öll húsin sem þar standa taka mið af henni og mynda óvenju vel heppnaða heild. Það er því ekki að ástæðulausu að sumir vilja staldra aðeins við og athuga hvað er að gerast þar núna.
Myndin sem hér fylgir er af fyrirhugaðri Þorláksbúð við hlið Skálholtskirkju. Hún hefur ekki birst víða en á henni held ég að komi fram allt sem segja þarf. Þorláksbúð sem ýmist var notuð sem skrúðhús og geymsla hefur sjálfsagt farið vel þarna á 16. öld og þar mátti líka slá upp messu þegar stóru kirkjurnar brunnu eins og þær áttu til. En að reisa Þorláksbúð í dag alveg við hlið Skálholtskirkju nútímans er ekkert nema sjónrænt og menningarlegt slys. Það verður bara að hafa það þótt vinna og fjármunir fari í súginn ef hætt verður við þetta, og það verður bara að hafa það þótt einhverjir hafi verið seinir að átta sig. Þetta gengur ekki. Það hljóta allir að sjá sem hafa minnsta vott af smekklegheitum.
Myndin hér að ofan er fengin af Sunnlenska fréttavefnum
Byggingar | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)