24 ára hafísþróun á Norður-Íshafinu á einu myndskeiði

Merkilegt hvað tæknin nú á gervihnattaöld gerir okkur kleift að fylgjast vel með. Á myndskeiði sem ættað er frá Bandarísku veðurstofnunni NOAA má sjá á afar skýran hátt hegðun hafísbreiðunnar frá árinu 1987 og þá sérstaklega hnignun fjölæra íssins sem er hvítur á myndinni. Ísinn á Norður-Íshafinu er langt frá því að vera kyrrstæður enda er hann sífellt hrakinn áfram af vindum og straumum, jafnvel árum saman uns hann bráðnar að lokum í mildari sjó eða í heimskautasólinni að sumarlagi.

Hafis 1987-2011
Gamli ísinn að hverfa
Hin síðari ár og þá sérstaklega hin allra-síðustu hefur mikil breyting orðið á aldursamsetningu íssins því vegna aukinnar bráðnunar að sumarlagi hefur ísinn varla fengið nokkurn frið til að eldast og dafna miðað við það sem áður var. Þar skiptir mestu að á stórum hluta Íshafsins norður af Kanada gat ísinn lifað góðu lífi hvert sumarið af öðru í hringiðunni miklu sem kennd er við Beuforthafið norður af Kanada og Alaska. Á öðrum svæðum hefur leiðin hins vegar legið rakleiðis að sundinu milli Svalbarða og Grænlands þaðan sem ísinn á ekki afturkvæmt.
Smám saman hefur þetta verið að breytast og þá sérstaklega eftir árið 2007 þegar bráðnunin gerir mikla atlögu að ísnum aftanfrá, þ.e. inn af Beringssundi. Gamli þykki ísinn sem hafði komið sér vel fyrir í Beufort-hringiðunni verður þannig hvað eftir annað fyrir miklum skakkaföllum með augljósum afleiðingum fyrir aldursamsetningu íssins. Allt sést þetta ágætlega á myndskeiðinu.

Nánar er fjallað um þetta á heimasíðu NOAA:
http://www.climatewatch.noaa.gov/video/2011/old-ice-becoming-rare-in-arctic


Bloggfærslur 5. nóvember 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband