7.11.2011 | 18:28
Þegar loftslagsumræðan fer hamförum
Þó að ég sé almennt á því að við eigum að taka alvarlega því sem sagt er um loftslagsbreytingar, þá verður maður stundum dálítið undrandi hvað fjölmiðlar eiga það til að yfirkeyra hættuna meira en góðu hófi gegnir.
Eitt skýrasta þannig dæmi sem ég hef séð lengi er frétt í DV núna á mánudaginn 7. nóvember. Þar er vitnað í Sigga storm Ragnarson og því slegið upp með stóru letri að: Smáralind færi á kaf. Undirfyrisögnin er: Skýrsla sameinuðu þjóðanna spáir hamförum í veðri - Yfirborð sjávar mun að öllum líkindum hækka um sex metra - Sjávarlóðir gætu orðið einskis virði. Í texta sem tekin er út sérstaklega til áherslu segir síðan: Við erum að tala um næstu tvær eða þrjár kynslóðir sem munu horfa upp á þetta. Þú gætir upplifað þessa breytingu á meðan þú lifir.
Nú er ég reyndar ekki alveg með á hreinu hvað hér er átt við með tveimur til þremur kynslóðum en ef þetta gæti gerst á meðan ég eða þú lifum þá er greinlilega verið að tala um 40-100 ár miðað við barnseignaraldur fólks. Allavega þá er það alveg öruggt að sjávarborð er ekki að fara að hækka um sex metra á næstu áratugum og ekki heldur á næstu 100 árum. Um þessar mundir er talið að sjávarborð hækki um 3 mm ári að meðaltali sem þýðir 30 cm á öld. Sú hækkun hefur verið skrikkjótt og hefur reyndar verið enn minni allra síðustu ár. Hækkunin mun þó eitthvað aukast, en spá um hækkun sjávarborðs samkvæmt hinum óskeikula vef loftslag.is er um 35 cm fyrir árið 2050 ef heldur fram sem horfir. Óvissan er þó talin mikil. En 6 metra hækkun sjávarborðs með þeim hræðilegu afleiðingum að Smáralindin færi á kaf jafngildir bráðnun alls Grænlandsjökuls. Það mun hins vegar ekki gerast fyrr en eftir margar aldir í fyrsta lagi eða jafnvel eftir einhver þúsund ár og þegar það gerist verður hvort sem er löngu búið að afskrifa Smáralindina vegna aldurs og veðrunar nema hún fari í varðveisluflokk sem merk gömul bygging.
Okkar litli Vatnajökull er ekki nálægt því að hverfa á þessari öld en hugsanlega smájöklar eins og Snæfellsjökull, en það er allt önnur saga og hefur vægari afleiðingar. Sigurður Stormur talar líka um jökulinn á Suðurskautslandinu og bendir réttilega á að ef sá jökull hyrfi í hafið yrðu afleiðingarnar mun alvarlegri, en klikkir síðan út með því að segja að sú þróun gæti tekið nokkrar aldir. Nokkrar aldir? spyr ég og svara sjálfur: Jökullinn á Suðurskautslandinu mun ekki hverfa á næstu öldum, heldur í fyrsta lagi eftir 1000 ár ef hann mun þá yfirhöfuð hverfa áður en næsta jökulskeið leggst yfir. En ekki eru allir sammála um allt. Sumir segja að jöklar séu ekkert að hverfa og ekkert að hlýna í heiminum og svo þurfum við kannski ekkert að hafa áhyggjur af bráðnun jökla því sagt er að sjálf endalokin verði í pólskiptunum ógurlegu undir lok árs 2012.
Á Rás2 sama morgun.Ég gæti líka fjallað um dálítið loftslagstal sem ég heyrði á Rás2 í morgun. Þar voru þau Andri Freyr og Gunna Dís að undrast yfir þessu hlýja veðri og snjóleysinu hér ásamt flóðum og öðru veseni út í heimi. Andri vildi meina að aðalorsakavaldurinn þarna væru spreybrúsarnir sem hún notar á hárið sitt. Hún benti hinsvegar á að hann sjálfur ætti meiri þátt í eyðingu ózonlagsins með því aka um á bíl og flokka ekki rusl.
Já, umhverfisógnin getur verið margþætt og snúin. Fólk má auðvitað alveg tala um mengun og loftslagsvandann þótt það sé ekki sérfræðingar í fræðunum. En fólk verður að passa sig á því að fara ekki hamförum og rugla ekki vandamálum saman. Jafnvel þótt það vilji vera sniðugt.