Stóra snjókomumyndin

Þar sem snjórinn er mál málanna er mál til komið að birta nýjustu útgáfu af snjókomumósaíkinni sem ég setti saman á sínum tíma og bæti við eftir því sem á líður. Myndin á að skýra sig sjálf en geri hún það ekki þá táknar hver lárétt runa einn vetur samkvæmt ártali vinstra megin. Hvítu skellurnar tákna hvíta jörð í Reykjavík á miðnætti. Flekkóttir dagar eru einnig taldir með ef ég hef metið snjóhulu næga. Þetta er gert upp úr mínum eigin athugunum og því getur verið einhver munur á þessum gögnum og athugunum Veðurstofunnar sem gerðar eru á túninu þar að morgni til.

Snjór 1986-2011

Neðst á myndinni er núverandi vetur svo langt sem hann er kominn og ég gef mér að hann verði hvítur til áramóta. Það sem af er vetri er þetta einfalt. Jörð var fyrst hvít á miðnætti 24. nóvember og hefur verið síðan. Alhvítur desember sést ekki á myndinni fyrr en nú í ár en nokkrir eru þó nálægt því. Hvítasti veturinn á myndinni er 1994-1995 með 129 daga en sá snjóléttasti er veturinn sem kom varla, nefnilega veturinn 2002-2003 með 32 daga. Aðeins einum snjódegi meira var svo veturinn 2009-2010.

Snjódýptin sést ekki á myndinni en í minningunni er veturinn 1988-1989 eftirminnilegastur vegna mikils fannfergis eftir áramót og fram í apríl. Veturinn þar á eftir var snjórinn einnig mjög þrálátur en ekki nærri eins mikill og samfelldur.

Það má líka skoða endana. Árin 2008 og 2009 snjóaði óvenjusnemma en það entist þó ekki lengi. Þrjú tilfelli eru um hvíta jörð í bláendann í apríl. Sumir muna kannski eftir mikla snjónum að morgni 1. maí á þessu ári, svipað og gerðist árið 1987.


mbl.is Taka daginn snemma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. desember 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband