21.5.2011 | 11:58
Gömlu bíóin
Margt breytist með tímanum, þar á meðal bíómenningin. Þegar heimsóknir mínar í kvikmyndahús voru í hámarki á árunum kringum 1980 voru flest bíóin ennþá staðsett í gamla miðbænum eins og verið hafði frá upphafi. Hér á eftir kemur dálítið yfirlit yfir þessi gömlu bíó í borginni. Til skreytingar og sem sönnunargagn læt ég fylgja bíómiða frá viðkomandi bíóum en lengi vel geymdi ég flesta bíómiða sem ég fékk. Myndirnar sýna kvikmyndahúsin eins og þau eru í dag hvort sem þau eru til eða ekki. Alls mun ég taka fyrir níu kvikmyndahús með þessum hætti í tveimur bloggfærslum.
Hið eina og sanna gamla bíó er sjálft Gamla bíó sem flutti í þetta glæsilega hús árið 1927. Upphaflega var það stofnað árið 1906 sem Reykjavíkur Biograftheater og var til húsa í Fjalakettinum undir stjórn Bíó-Petersens. Þarna voru sýndar bíómyndir allt til ársins 1981 eða þar til óperan tók völdin. Hún er nú horfin á braut á vit nýrra ævintýra. Þær myndir sem ég man helst eftir úr Gamla bíói eru háklassa teiknimyndir frá Disney eins og Skógarlíf, Hefðarkettirnir og Sverðið í steininum. Í þá daga voru teiknimyndir handteiknaðar og handmálaðar og meira að segja bara í tvívídd.
Nýja Bíó í Lækjargötu er ekki nýrra en svo að það er ekki til lengur. Á meðan ég sótti það bíó var það reyndar orðið ævagamalt enda má rekja sögu þess aftur til ársins 1912 er það hóf starfsemi sína í húsakynnum Hótels Íslands. Frá upphafi var það kallað Nýja Bíó til aðgreiningar frá hinu bíóinu í bænum sem þar með var kallað Gamla bíó. Árið 1920 hófust sýningar í nýju húsnæði inn af Austurstræti þar sem það var alla tíð síðan. Í mínum huga var Nýja Bíó alltaf í Lækjargötu enda var inngangurinn þaðan, en í raun var kvikmyndahúsið algerlega falið bak við önnur hús. Stjörnustríð er sennilega mesta kvikmyndaverkið sem ég sá þarna. Þrátt fyrir flottheit og framtíðarbrellur fannst hún í raun vera hver önnur hasarmynd þar sem vöndu kallarnir eru alltaf jafn agalega óhittnir. Þarna fór ég líka á fyrstu bönnuðu-innan-12-ára-myndina mína án fylgdar fullorðinna og án þessa að vera 12 ára. Sú mynd hét Þeysandi þrenning og var einn samfelldur eltingaleikur og bílahasar. Bíómyndir voru sýndar þarna til ársins 1987 en síðan var húsið gert að skemmtistað sem síðan brann og húsið rifið, en nú er verið að byggja einskonar eftirlíkingu af Nýja Bíói á bak við Iðuhúsið.
Austurbæjarbíó tók til starfa árið 1947 og þótti þá mikið og stórt en auk kvikmyndasýninga var það hugsað fyrir tónleika og leiksýningar. Sumir höfðu dálitlar áhyggjur af því að slíkt hús gæti ekki borið sig svona fjarri miðju bæjarins. Þær áhyggjur reyndust óþarfar. Síðustu árin var bíóreksturinn á vegum Sambíóveldisins en kvikmyndasögu hússins lauk árið 2002. Í framhaldi var húsinu naumlega forðað frá niðurrifi þegar reisa átti þarna íbúðarblokkir og því er enn hægt að sækja þarna leiksýningar og tónleika þegar slíkt er í boði. Íslenska kvikmyndavorið er oft talið hefjast árið 1980 með kvikmynd Ágústs Guðmundssonar, Land og synir. Þjóðin fjölmennti á þá mynd, líka þeir sem lönguhættir voru að fara í bíó. Eins og bíómiðinn ber með sér var myndin sýnd í Austurbæjarbíó og þangað var ég mættur kl. 5.
Hafnarbíó tók til starfa árið 1948 í einum af betri bröggum bæjarins og stóð við gatnamót Barónsstígs og Skúlagötu. Þetta var ekki eina braggabíóið því Trípólíbíó á Melunum var einnig í bragga en það var löngu horfið á minni tíð. Hafnarbíósbragginn reyndist einn af lífseigustu bröggunum í Reykjavík og var óneitanlega dálítið sérstakt að fara þangað í bíó en myndirnar voru ekkert verri fyrir það. Af heimsóknum í Hafnarbíó man ég helst eftir Einræðisherra Chaplins en sú mynd var auðvitað komin til ára sinna þegar ég sá hana. Einnig man ég eftir týpískri hrollvekju um hús sem draup blóði og var að auki inngangur í helvíti með öllum þeim óþægindum sem því fylgir fyrir íbúana. Hafnarbíó var rifið árið 1983 og nú er þarna fátt sem minnir á eldri tíð.
- - - -
Hér verður gert nokkurra daga hlé. Eftir hlé mun ég taka fyrir með sama hætti: Stjörnubíó, Regnbogann, Tónabíó, Laugarásbíó og Háskólabíó.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 12:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)