22.5.2011 | 16:25
Um hópsálir eldfjalla
Þótt Grímsvatnagosið hafi ekki gert mikil boð á undan sér er samt ekki hægt að segja að það sé mjög óvænt. Grímsvötn eru í eldvirknisfasa sem byrjaði með smágosi árið 1983 en stærri gosum eftir það. Fyrir 1983 hafði ekki gosið í Grímsvötnum svo talandi sé um síðan 1934.
Það getur verið snúið að ráða í hegðunarmynstur Íslenskra eldfjalla og ekki er alltaf hægt að treysta sögunni. Í nýjasta hefti Náttúrufræðingsins, sem ég keypti mér nú um helgina, nokkra klukkutíma fyrir gos, er ágætis grein eftir Sigmund Einarsson jarðfræðing þar sem hann veltir upp ýmsum erfiðum spurningum varðandi hegðun sunnlensku eldstöðvanna og hugsanlega samtengingu þeirra í virkni. Hugsanlega hefur orðið einhver meginbreyting á hegðun eldstöðvanna á seinni hluta 20. aldar sem lýsir sér með ýmsum hætti.
Katla sem hefur ekki gosið síðan 1918, er nú í sínu lengsta goshléi frá landnámi og engin veit hvenær því líkur. Hinsvegar fóru Vestmannaeyjar í gang með Surtseyjargosinu og síðar Heimaeyjargosinu, á þeim tíma sem vænti hefði mátt eldgoss úr Kötlu.
Hekla tók að gjósa á áratugafresti með gosinu 1970 og sé hún enn í þeim fasa hefði hún átt að gjósa í fyrra. Hinsvegar kom upp gos í Eyjafjallajökli sem vekur upp þá spurningu hvort Hekla hafi nokkurt púður til að láta til sín taka. Ekkert virðist benda til þess að Katla sé að fara í gang þótt sagan segi að hún fylgi á eftir Eyjafjallajökli. Almennileg Kötlugoss gera boð á undan sér með ýmsum hætti svo sem jarðskjálftahrinum, landrisi og uppþornuðum lækjum, ekkert slíkt virðist vera í gangi núna.
Skaftárkatlar hafa hlaupið reglulega á um 2ja ára fresti síðan 1955 sem gæti samkvæmt grein Sigmundar, verið enn eitt tákn um nýjung og jafnvel tengst breyttri goshegðun í Heklu þótt orsakasamhengið sé óljóst.
Nú veit ég ekki, en kannski þykir sumum ástæða til að endirskoða viðteknar hugmyndir sem menn hafa haft um einstaklingseðli og sjálfstæði megineldstöðva. Ef til vill er þær hópsálir og meira þrýsti- og kvikusamband á milli eldstöðvanna en almennt hefur verið talið.
Spádómar.
Hvort sem það er tilviljun eða ekki, þá hófst núverandi Grímsvatnagos sama dag og heimurinn átti að farast samkvæmt útreikningum amerísks sjónvarspredikara. Sjálfur hef ég stundum verið að leika mér með spádóma samanber mína árlegu haustspádómana um hvar muni gjósa næst á Íslandi. Það sakar ekki að geta þess að í síðustu spá minni voru Grímsvötn efst á blaði:
Líkindi þessa að næsta eldgos verði í viðkomandi eldstöð (Spá síðan 27. nóv 2010)
- Grímsvötn: 34%
- Hekla: 22%
- Katla: 15%
- Eyjafjallajökull (áframhald): 12%
- Bárðarbunga: 7%
- Askja og nágrenni: 5%
- Aðrir staðir: 5%
- Samtals: 100%
Sbr. hér: http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/1120590/
Myndin sem fylgir greininni er útlensk og sýnir eldgos í Kilauea á Hawaieyjum árið 1924.