28.6.2011 | 20:18
Ofurplönturnar taka völdin
Nú er blómatími sumarsins gengin í garð og þrátt fyrir litla úrkomu er borgin víða að kafna í gróðri. Þar á meðal er hinn hávaxni skógarkerfill að verki en hann er orðinn áberandi í borgarlandinu og blómstrar hvítum blómum um þessar mundir. Skógarkerfill er ættingi hvannarinnar og má finna talsverðar breiður af honum í Öskjuhlíðinni, Vatnsmýrinni, Elliðaárdal og víðar og sumstaðar er kerfillinn farinn að sækja inn í lúpínubreiður sem segir sína sögu hversu öflug planta þetta er.
Skógarkerfillinn er innflutt planta eins og lúpínan en er hingað komin sem skrautjurt snemma á síðustu öld og hefur verið notuð sem slík áratugum saman í görðum. Smám saman hefur plantan dreift úr sér og finnst nú víða um land við mismiklar vinsældir. Hún þykir orðin full aðgangshörð í Eyjafirði og Hrísey og þar hafa verið gerðar tilraunir til eyðingar á henni. Skógarkerfillinn er ólíkur lúpínunni að því leyti að hann fer ekki yfir ógróið land enda vinnur hann ekki köfnunarefni úr loftinu eins og belgjurtin lúpínan gerir. Kerfilinn lætur því aðrar jurtir um að skapa jarðveginn sem hann sækir síðan í. Væntanlega munu stóru lúpínubreiðurnar umhverfis borgina smám saman láta undan skógarkerflinum sem muna síðan ráða ríkjum í þéttum breiðum þar til einhver önnur og öflugri ofurplanta nemur land. Í Esjuhlíðum við Mógilsá er þetta mjög greinilegt þar sem grænhvíti-liturinn hefur nánast tekið við af þeim fjólubláa. Lúpínan mun þó halda áfram sínu landnámsstarfi um holt og hæðir, lyng og móa.
Gott eða slæmt?
Skógarkerfillinn og lúpínan eru ekki taldar til náttúrulegrar íslenskar flóru. Þessar plöntur eru ættaðar úr öflugri vistkerfum og stuðla að varanlegri breytingu á gróðurfari. Eins og ýmsir aðrir er ég ekki alltof hrifinn af þessari þróun sem skilar sér í einsleitara gróðurfari þar sem örfáar ofurplöntur gerast allsráðandi. Mér finnst þó ekki sérstök ástæða að amast við þessu innan byggðarinnar eða í næsta umhverfi þar sem hvort sem er ægir saman allskonar gróðri innlendum og innfluttum. Þetta er líka hinar fallegustu plöntur á meðan þær eru í blóma. Hinsvegar finnst mér verra þegar landgræðsla er stunduð með lúpínu og þegar fólk er beinlínis að stuðla að útbreiðslu hennar og fjöll of firnindi. Hefðbundið rótgróið gróðurfar á landinu er í mikilli sókn samkvæmt rannsóknum, ekki síst vegna aukinna hlýinda og minnkandi beitar. Landið er ekki að fjúka á haf út eins og óttast var fyrir nokkrum árum eða áratugum og virðist fullfært um að græða sig sjálft á eigin forsendum með tíð og tíma.
Skrautlegar ofurplöntur í Öskjuhlíð í harðri valdabaráttu.
- - - - -
Nánar um Skógarkerfilinn má finna hér á vef Náttúrfræðistofnunar:
http://www.ni.is/grodur/rannsoknir/agengartegundir/skogarkerfill