5.8.2011 | 16:51
Flugufrétt og Stjórnleysisráð
Fyrst er það flugufréttinn. Á dögunum sá ég þetta óvenjulega skordýr sem sat á svörtum plastpoka í garðinum hjá mér í Vesturbænum og er örugglega það stærsta sem ég hef séð hér á landi. Með fótum og öllu gæti það hafa slagað hátt í 5 sentímetra. Ég tók mynd af þessu kvikindi og sendi fyrirspurn til Náttúrufræðistofu Kópavogs. Mér var svarað á þá leið að þetta væri skylt hrossaflugu og kallaðist Folafluga (Tipula paludosa). Þessara tegundar mun fyrst hafa orðið vart í Hveragerði árið 2001 en hefur síðan breiðst út og er farin að sjást á höfuðborgarsvæðinu. Folafluga mun vera skaðvaldur fyrir skógrækt erlendis þar sem hún leggst á nýgræðinga. Ýmsar óvenjulegar flugu- og fuglategundir hafa sést hér á landi síðustu ár. Hlýnandi tíðarfar á þar sjálfsagt einhvern þátt.
Þegar fyrst var rætt um stjórnlagaþing á sínum tíma hélt ég að tilgangurinn með því væri sá að laga ýmis atriði í núverandi stjórnarskrá sem voru óljós og almennt orðuð. En í stað þess að laga stjórnarfarið þá virðist nefndin hafa haft það að markmiði að leysa upp stjórnarfarið og koma á einhverskonar stjórnleysi eða allavega að auka það. Samkvæmt tillögunum hefur vald Alþingis verið skert og hægt að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu ef 10% kjósenda dettur það í hug. Mjög auðvelt er að ná því hlutfalli nú á tímum feisbókar og bloggsins. Alþingi netsins gæti það kallast. Kosningakerfinu verður stokkað upp, ýtt verður undir persónukosningar og hægt að kjósa einstaklinga á alla kanta og þvert á þá flokka sem maður kýs sjálfur. Tímar stjörnupóíltíkusa munu renna upp og skiptir þá máli hverjir eru duglegastir að láta á sér bera og koma fram í spjallþáttum. Útkoman verður sennilega enn óskiljanlegra kerfi en það er í dag. Sjálfur er ég nokkuð íhaldssamur en þó ekki íhaldsmaður. Þessi íhaldsemi réð ríkjum þegar ég kaus til stjórnlagþings á sínum tíma en enginn þeirra sem ég kaus komst að og hafa örugglega fæstir átt nokkurn möguleika, enda ekki nógu þekktir og sjálfsagt of íhaldsamir. Það hefur verið vinsælt að kenna hinum svokallaða fjórflokki um allar landsins hörmungar enda liggur sá flokkur vel við höggi. Það þykir rómantískara að færa ákvarðanatökuna til fólksins - til meirihlutans sem á alltaf að hafa rétt fyrir sér. Einhvern veginn grunnar mig að ég muni oftar en ekki standa utan við þann meirihluta.
Ég hef verið nokkuð kerfislægur í bloggfærslum undanfarna mánuði og boðið upp á framhaldsbloggfærslur, mánaðaryfirlit og fasta árlega liði. Það liggur nokkurn vegin fyrir hvað ég mun blogga um næsta mánuðinn. Ekki vil ég segja frá öllu fyrirfram en get sagt að mánaðarlegt sumarhafísyfirlit verður næst og síðar í mánuðinum er stefnt að dálítilli nýjung sem gæti kallast persónuleg framhaldslygasaga í þremur hlutum. Þessi tvíeggjaða bloggfærsla var hinsvegar bara aukanúmer inn á milli.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)