23.9.2011 | 22:29
Manngerðir skjálftar
Hvað með þessa skjálfta á Hengilssvæðinu, á þetta bara að vera svona til frambúðar? Í fréttum er talað um að það sé verið að losa frárennslisvatn frá jarðhitavirkjuninni við Hellisheiði með því dæla því ofan í jörðina. Lítið kemur hins vegar fram um hvort þetta sé framtíðarlausn þótt sennilega sé það svo. Frárennslisvatn sem verður til við virkjunina þarf að losna við með einhverjum hætti en upphaflega stóð til að hafa niðurrensli við Gráuhnjúka. Jarðskjálftarnir eru sagðir vera hættulausir jafnvel þótt þeir séu yfir þremur að stærð. En vita menn það fyrir víst?
Ekki man ég eftir nokkurri umræðu um jarðskjálfta áður en virkjunin var reyst. Kannski vissu menn ekki að skjálftavirknin yrði svona mikil við þessa niðurdælingu en kannski vissu menn það en vildu ekki hræða fólk að óþörfu. Jarðhitavirkjanir eru nógu umdeildar fyrir þótt ekki sé verið að tala um þær gætu valdið jarðskjálftum. Kannski er ágætt að smyrja jarðlögin þannig að jarðlögin hreyfist mjúklega í litlum skjálftum frekar en í fáum og stórum þegar berglögin hrökkva af stað með látum á margra ára fresti. En hvað veit maður? Virkjunin er á miðju vestara gosbeltinu þar sem landið er að gliðna í sundur og utan í megineldstöð að auki. Þótt jarðhitamenn séu rólegir yfir þessu þá finnst mér þetta samt vera frekar leiðinleg viðbót, ekki síst ef þetta á að vera svona til frambúðar. Ég vil hafa ekta jarðskjálfta, ekta eldgos, ekta veður og yfirhöfuð að náttúran sé sem mest ekta.
Meðfylgjandi skjálftakort föstudagsins 23. september eftir líflegan dag á Hengilsvæðinu. Stærsti skjálftinn er áætlaður um 3 að stærð.
![]() |
Fjöldi skjálfta við Hellisheiðarvirkjun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |