Sól í Reykjavík og rigning í Danmörku

Á vef dönsku veðurstofunnar hefur það verið gefið út að sumarið hjá þeim hafi verið það næst úrkomumesta frá upphafi mælinga, sem ná aftur til 19. aldar. Fyrir Danmörku í heild var meðalúrkoma mánuðina júní-ágúst 321 mm og aðeins vantaði 2 mm upp á til að sumarúrkoman felldi metið frá 1980 sem er 323 mm.
Til samanburðar mældist úrkoman í Reykjavík þessa sömu mánuði 83 mm sem er nálægt helmingi meðalúrkomu. Sumarið var einnig þurrt víða vestanlands og raunar líka norðanlands, en mest rigndi þó miðað við meðallag á austurhluta landsins.

Undanfarin sumur hafa verið mjög góð hér á vesturhluta landsins en síðri á austurhlutanum. Að sama skapi hafa undanfarin sumur verið slæm í Norður-Evrópu og varla komið að ráði nema svona endrum og sinnum til undantekninga. Allt hangir þetta auðvitað saman í einni allsherjar örlagahringrás enda er það nú oftast þannig að sjaldan fer saman góðviðristíð í Reykjavík og Danmörku. Lægðirnar hafa verið gjarnar á það undanfarin sumur að fara suður fyrir land og hellt úr sér yfir Norður-Evrópu þar sem íbúar fá vota suðvestanáttina beint í fangið sem þýðir að við hér á landi fáum austan- eða norðaustanáttina í bakið, en við þekkjum vel hvaða misjöfnu afleiðingar það hefur með tilliti til landshluta.

Öðru máli gegnir auðvitað ef hæð sest að yfir Bretlandi en það hefur verið fremur sjaldgæf uppákoma hin síðari sumur. Slíkt er ávísun á lægðargang upp að Íslandi úr suðvestri þannig að allt snýst við. Rigningartíð gengur í garð sunnan- og vestalands með bongóblíðu norðaustanlands og Norður-Evrópu. Spurning hvenær við fáum svoleiðs sumar?
Tíðarfar í Suður-Evrópu á kannski ýmislegt sameiginlegt með tíðarfari í Reykjavík nema kannski hitann. Þar er sólríkt á meðan rignir í Norður-Evrópu og á Austurlandi og öfugt.

Veðurkort 12. sept 2011

Veðurspákort frá Bresku veðurstofunni sem gildir 12. september er nokkuð dæmigert. Öfuga hringrásin í kringum lægðina sést vel ásamt allskonar skiladóti. Lægðin hefur reyndar oftar en ekki haldið sér sunnar en þarna sést enda erum við í talsverði norðanátt núna. Sólar- og rigningartákn eru viðbót frá mér og einnig skyggðu svæðin sem standa fyrir einhverskonar dimm- og votviðri.

Sumarregnsyfirlit dönsku veðurstofunnar: http://www.dmi.dk/dmi/den_vade_sommer_2011


Bloggfærslur 7. september 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband