Árshitinn í Reykjavík 1901-2011 í kubbamynd

Árið 2011 hefur nú fengið sinn sess í kubbamyndinni sem ég gerði fyrir tveimur árum og hef uppfært síðan. Nú liggur fyrir að meðalhiti liðins árs í Reykjavík var 5,4 stig. Það er örlítið undir meðalhita síðustu 10 ára, rúmlega gráðu yfir 30 ára meðaltalinu frá 1961-1990 og næstum hálfri gráðu yfir hlýja 30 ára meðaltalinu 1931-1960. Nýliðið ár er í félagsskap með fjórum öðrum jafnhlýjum árum, grænblátt að lit sem verður litur áratugarins. Annars sést þarna ágætlega hvernig áratugirnar dreifast á hitaskalanum. Sá síðasti hélt sér alfarið ofan við 5 stigin öfugt við fyrsta áratug 20. aldar sem komst ekki upp fyrir 4,5 stigin. Efst trónir þarna árið 2003 með 6,1 stig í meðalhita en árið 1979 situr sem fastast á botninum með árshita upp á aðeins 2,9 stig.

Árshiti Rvik kubbamynd

Nú má velta fyrir sér hvort árshitinn sé kominn til að vera yfir 5 stigunum. Ég held að það sé frekar ólíklegt og alls ekki hægt að stóla á að nýhafinn áratugur verði hlýrri en sá síðasti. Miðað við fjölbreytileika hitafars getum við alveg átt von á talsvert köldu ári eða árum hvað sem líður almennri hnattrænni hlýnun. Einn kaldur mánuður eins og nýliðinn desember þarf hinsvegar alls ekki að vera boðberi kaldari tíma og segir lítið um hvort árið 2012 blandi sér í botn- eða toppbaráttuna.

- - - -

Í framhaldi af þessu minna má minna á að hér á síðunni er myndalbúm sem inniheldur allskonar heimatilbúna veðurgrafík eins og þessa mynd. Þær myndir uppfærast óreglulega.


Bloggfærslur 5. janúar 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband