Stjórnarskrár(vanda)málið

Fyrsta setningin í bloggfærslum finnst mér alltaf erfiðust og ekki síst núna þegar ég ætla að reyna að skrifa um þetta mikilvæga mál – eða ómikilvæga eftir því hvernig á það er litið. En til að lesendur fái smjörþefinn af afstöðu minni til stjórnarskrármálsins þá vil ég rifja upp dálítið sem ég var spurður um fyrir mörgum árum þegar einn kunningi minn var kominn í framboð og spurði hvort ég vildi meiri völd. Ég skildi spurninguna ekki alveg í fyrstu en eftir frekari útskýringar kom í ljós að spurningin snérist um það hvort ég sem almennur borgari ætti að hafa meiri áhrif um stjórn landsins og þannig fá meiri völd. Eftir smá þögn og umhugsun kom svar mitt sem var einfalt: Nei.
Neitunin hefur sennilega valdið þessum kunningja mínum dálitlum vonbrigðum og líklega komið honum eitthvað á óvart. Kannski kom svarið mér sjálfum líka á óvart en það var allavega einlægt því að í rauninni langaði mig ekkert sérstaklega í meiri völd. En það var líka annað sem ég hafði í huga sem var að ef ég fengi meiri völd, þá fengju allir hinir líka meiri völd og ef allir hinir fá líka meiri völd þá hefur í rauninni enginn fengið meiri völd, nema kannski bara meirihlutinn. Eða hvað? Best væri auðvitað fyrir mig ef ég fengi að ráða öllu einn, en slíkt einræði er varla í boði.

Þannig er um margar spurningar að það er ekki auðvelt að svara þeim neitandi. Barn sem spurt er hvort það vilji nammi eða fisk, hlýtur yfirleitt að velja nammið, jafnvel þó það viti að fiskurinn sé hollari. Og þegar þúsund manns koma saman á þjóðfundi til að gera óskalista fyrir þjóðina verður útkoman alltaf einhver útgáfa af að boðorðunum þremur: Frelsi, jafnrétti og bræðralag - reyndar allt gott um það að segja. En svo þegar þetta er sett í stjórnarskrá verður útkoman einhvern veginn þannig: „Allir eiga að fá að ráða meiru og allir jafn miklu“. Semsagt allir eiga að fá að ráða, nema reyndar þeir sem eru svo óheppnir að hafa aðrar skoðanir en meirihlutinn. Sem þýðir að minnihlutinn fær engu ráðið þegar upp er staðið og fellur þá um sjálft sig að allir fái að ráða. Málamiðlanir eru ekki í boði í svona Já- og Nei-ræði.

Þetta er kannski orðið dálítið snúið hjá mér og á mörkunum að ég skilji þetta sjálfur. En allavega þá voru það pælingar í þessum dúr sem urðu til þess að ég varð fljótlega mjög efins þegar talað var um að kjósa stjórnlagaþing til að breyta stjórnarskránni, svo ekki sé talað um að skrifa algerlega nýja. Mikilvægt plagg eins og Stjórnarskrá er ekki sett saman nema mjög rík ástæða er til. Þetta er sáttmáli sem almenn sátt á að ríkja um og engar deilur. Þetta er sáttmáli sem allir eiga að bera virðingu fyrir hvar sem þeir standa í pólitík. Þess vegna er í raun ógjörningur að koma slíku plaggi saman nema þegar nýtt ríki er stofnað eða þegar meiriháttar stjórnarfarsbreytingar eiga sér stað.

Fjármálahrunið var örlagaríkt en þó varla nægilega þungvægt til að koma fram með nýja stjórnarskrá. Hugmyndin að nýrri stjórnarskrá varð í rauninni til í nokkurskonar panikástandi eftir hrun þar sem öllu átti helst að breyta og það hið snarasta. Þetta féll mér ekkert sérstaklega vel þannig að þegar kosið var til stjórnlagaþings, kaus ég þá frambjóðendur sem vildu fara sér hægt og halda vörð um ríkjandi stjórnarskrá en þó kannski með smá lagfæringum. Enginn þeirra sem ég kaus náði kjöri enda voru þetta lítt þekktir einstaklingar sem varla höfðu sést í sjónvarpi og alls ekki í Silfri Egils. Þeir sem völdust í ráðið voru því ekki þar samkvæmt mínum óskum enda tilheyrði ég þarna minnihlutanum sem fékk engu ráðið. Ekki var ég heldur á Þjóðfundinum og get því ekki sagt að þarna sé verið að fara eftir mínum þjóðarvilja.

Ég veit ekki hvernig þetta mál fer en það er nú kyrfilega komið í skotgrafir stjórnmálanna eins og við mátti búast frá upphafi. Það er svo sem eðlilegt í mörgum málum en mjög óheppilegt þegar um stjórnarskrá Lýðveldisins er að ræða. Þess vegna hefði kannski verið betra að fara hægar í sakirnar, breyta nokkur atriðum núna og öðrum seinna. Í fyllingu tímans verður þá búið að endurskrifa stjórnarskrána og þá verður kannski hægt að tala um stjórnarskrána eins og gamla hamarinn hans afa sem fyrst fékk nýtt skaft og seinna nýjan haus en varð samt alltaf sami gamli hamarinn hans afa.

14Esja18nov.jpg

Frá Esjuhlíðum.


Bloggfærslur 13. október 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband