23.11.2012 | 23:54
Skeggtíska endurspeglar tíðarandann
Við lifum á skeggjuðum tímum þar sem ekkert þykir sjálfsagðara en að karlmenn láti andlitshár sín vaxa óskert. Þannig hefur það þó ekki alltaf verið enda er skeggtíska nátengd tíðarandanum hverju sinni rétt eins og önnur tískufyrirbæri. Fyrir nokkrum dögum var skeggfræðingur kynntur til sögunnar í sjónvarpinu en sá hafði skrifað BA-ritgerð um skeggsögu Íslendinga. Náði sú athugun eitthvað aftur í aldir en endaði sirka á hippaárunum kringum 1970 ef ég man rétt. Sjálfsagt mjög athyglisverð rannnsókn.
En skeggsagan endar þó ekki þar og frá árinu 1970 hefur skeggtískan farið heilan hring eða jafnvel tvo, þannig að eiginlega má tala um skeggjaðar og óskeggjaðar kynslóðir eins og ég ætla að reyna að rekja hér. Ég get svo sem upplýst að ég er fæddur árið 1965 sem þýðir að ég varð tvítugur árið 1985. Á þeim árum datt varla nokkrum ungum manni á uppleið í hug að láta sér vaxa skegg enda má segja að ég tilheyri skegglausu kynslóðinni. Á árunum um og upp úr 1980 þótti hjá ungum mönnum það vera beinlínis gamaldags, kallalegt og fúlt að vera með skegg.
Hetjur 9. áratugarins voru heldur ekki með skegg, hvorki pönkararnir né nýrómantísku poppararnir. Eiginlega áttu menn að vera kvenlegir ef eitthvað var in the eighties, með mikið blásið hár upp í loftið í penum skófatnaði og jafnvel málaðir, á sama tíma og konurnar voru með axlapúða til að gerast karlmannlegri. Þetta voru líka tímar framtíðarhyggju enda voru tölvurnar farnar að gera það gott og allt sem var nútímalegt og framsækið þótti jákvætt. Þetta voru líka tímar efnishyggju og þá þótti allt annað en skammarlegt að vera svokallaður uppi.
Ýmsir menn á besta aldri voru þó með skegg á 9. áratugnum en það voru þá leifar frá hárunum um og eftir 1970 þegar mikil skeggtíska var í gangi sem tengdist hippamenningunni. Helst voru það þá hinir rótækari sem létu skegg sitt vaxa og stundum mjög frjálslega. Vinstri menn, verkalýðsleiðtogar, spekingar og svo auðvitað margir popparar voru þarna áberandi skeggjaðir og eru sumir jafnvel enn. Mörg skeggin hafa þó rýrnað mjög með tímanum og eru í dag varla nema svipur hjá sjón eða jafnvel horfin. Hægri menn og Framsóknarmenn áttu sín skegg líka en þar voru yfirvaraskeggin meira í tísku. Þau voru líka góð og gild á diskótímanum en kolféllu út úr myndinni eftir það og fátt hefur verið fráleitara en yfirvaraskegg hjá minni kynslóð og þeim seinni jafnvel líka.
Þegar leið á 9. áratuginn fór þetta smám saman að breytast. Ameríska rapp- og hjólabrettamenningin fór að verða áberandi, og draumaliðið USA í körfubolta sló í gegn. Þá þótti smart að vera með frjálsleg hálfskegg og hárlitlir menn fengu uppreisn æru og máttu raka það sem eftir var á kollinum í stíl við Michael Jordan. Þarna var líka komin heilmikil þreyta gagnvart framtíðarhyggju og skynsemishyggju 9. áratugarins. Nýaldarmenning allskonar hófst með 10. áratugnum og hippatískan var endurunnin með síðum hárum og ýmsum skeggútgáfum að ógleymdu "grönsinu" með Kurt Kóbein í broddi fylkingar. Þetta frjálslega lúkk gekk þó ekki þegar menn ætluðu sér stóra hluti í ört vaxandi fjármálaheimi upp úr aldamótunum. Þar réði snyrtimennskan ríkjum með vel snyrtum andlitum og burstuðum skóm. Tíska og tíðarandi hefur annars oft skipst í tvær fylkingar. Í úthverfum borgarinnar og nágrannsveitarfélögum þróaðist hnakkamenningin sem var mjög mótfallin öllum líkhamshárum neðan hnakka. Til mótvægis voru svo krakkarnir í hundraðogeinum sem tilheyrðu krúttskynslóðinni. Þótt áherslan hafi þar verið á hið barnslega sakleysi létu strákarnir sér þó vaxa það skegg sem í boði var og þótti passa einkar vel við prjónahúfurnar.
Í dag þegar draumaheimar frjálshyggjunnar hafa kollsteypst virðist hið frjálslega útlit hafa tekið völdin með sigri hipsteramenningarinnar. Í stað Arne Jakobsen snúast smartheitin nú um að endurnýta það gamla. "Retró" er málið og Slippfélagshúsið er orðið að hóteli með gamaldags veggfóðrum og Kexverksmiðjan Frón heitir nú KEX Hostel og þar getur varla nokkur vel rakaðaður maður látið sjá sig. Jafnvel menn af minni kynslóð eru farnir að sjást með skegg, man til dæmis eftir einum skólabróðir úr MH sem kannski ætlar að verða formaður Samfylkingarinnar og fleiri mætti nefna. Sjálfur er ég í engum slíkum hugleiðingum en viðurkenni þó að rakvélin er ekki notuð á hverjum degi.
Myndaröðin hér að ofan er tekin af bloggsíðunni Beards of Reykjavik þar sem sjá má mikið samansafn að skegglingum.
Á hinum myndunum má annarsvegar sjá drengjahljómsveitina Duran Duran og hinsvegar mynd sem ég tók af tveimur pólitíkusum af vinstri kantinum á fyrstu vikum búsáhaldabyltingarinnar. Skeggjaður guðfræðiprófessor sýnist mér líka gægjast þarna inn.
Um BA-ritgerð Siggeirs F. Ævarsonar, Upphaf íslenskrar skeggtísku, má lesa nánar hér:
Skeggfræðingur rannsakar skeggsögu Ísland.
Vísindi og fræði | Breytt 24.11.2012 kl. 00:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)