28.12.2012 | 13:14
Grænlandsjökull fyrir 2.500 árum
Nú kemur nokkuð löng bloggfærsla og ekki að ástæðulausu því þættinum hefur borist bréf. Kannski ekki beinlínis bréf, heldur vinsamleg beiðni í athugasemdakerfinu frá Kristni Péturssyni, bloggara, útgerðarmanni og fyrrverandi Alþingismanni og ekki síst "áhugamanni um vandaða þjóðmálaumræðu" og hljóðar þannig:
Sem grafískur hönnuður ferðu létt með að gera mynd af Grænlandsjökli á pari við þessa mynd. Vinsamlega reyna að gera sambærilega mynd af Grænlandsjökli og svo getum við síðar rætt um að gera sambærilega mynd af öllum norðurslóðum fyrir 2500 árum. Það er ekki hægt að nálgast umræðuefnið "hnattræna hlýnun" nema byrja fyrir a.m.k. 2500 árum.Með beiðninni fylgir Íslandskortið hér til hliðar sem sýnir hvar smájöklar voru líklega fyrir 2.500 árum. Kortið er frá 1996 og höfundar þess eru jarðfræðingarnir Grétar Guðbergsson og Þorleifur Einarsson.
Yfirleitt tek ég frekar dræmt í ábendingar frá öðrum um hvað ég ætti að taka fyrir í mínum bloggfærslum. Mér fannst þetta hinsvegar nokkuð áhugavert viðfangsefni og í svari mínu til Kristins sagði ég að grafíska hliðin væri ekkert vandamál ef hann treysti mér til þess að meta stærð jökulsins. Ég tók fram að ég hefði vissar hugmyndir og vísbendingar en auðvitað er ég enginn sérfræðingur á sviði jöklarannsókna og því síður náttúruvísindamaður. En það má þó alltaf reyna.
Umrætt Íslandskort með sinni 2.500 ára gömlu jöklastöðu hefur oft dúkkað upp hjá K.P. og fleirum. Það sem greinilega þykir merkilegast við kortið er hversu litlir jöklarnir eru og þykir sumum það gefa vísbendingar um hversu lítilfjörlegt núverandi hlýindaskeið er í samanburði við fyrri hlýindi. Eða eins og KP segir sjálfur í bloggfærslu frá 9.mars 2011: Fyrir aðeins 2500 árum voru litlir jöklar á Íslandi eins og þessi mynd sýnir. Í því ljósi er frekar broslegt að fylgjast með vælubíl umhverfisvina um loftslagsbreytingar "af manna völdum".
Þetta Íslandskort er auðvitað enginn endanlegur sannleikur um jöklastöðu fyrir 2.500 árum og er vissulega ekki nákvæmt. Ég hef til dæmis bent á að Öræfajökull er á vitlausum stað á kortinu. Spurning er líka hversu miklar ályktanir er hægt að draga útfrá jöklastöðu hvers tíma. Er jöklastærð t.d. alltaf í samræmi við ríkjandi hitastig eða spilar þar inn í hitastig undanfarinna alda eða árþúsunda? Það er vel þekkt staðreynd að jöklar á norðurhveli voru minni fyrir nokkrum árþúsundum en í dag og að meginhluti Vatnajökuls er ekki leifar af síðasta jökulskeiði sem lauk fyrir um 10 þúsund árum. Hlýjasta tímabil núverandi hlýskeiðs (Holocene) var fyrir um 6-9 þúsund árum en síðan þá hefur leiðin legið meira og minna niður á við með kólnandi loftslagi og stækkandi jöklum. Eins og ég kom inn á í síðustu bloggfærslu þá eru breytingar á möndulhalla jarðar eru taldar spila þarna sterkt inn í, því með meiri möndulhalla fyrir nokkur þúsund árum var sólgeislun sterkari á norðurslóðun að sumarlagi sem skilaði sér í meiri snjóbráðnun og smærri jöklum. Þróunin hefur síðan verið í átt að minni möndulhalla og minnkandi sólgeislun og fór Vatnajökull að þróast sem ein samfelld ísbreiða fyrir um 2 þúsund árum. Stærð jökulsins náði svo hámarki við lok 19. aldar en með núverandi hlýnunartímabili, sem ekki sér fyrir endann á, eru Íslensku jöklarnir greinilega of stórir til að halda jafnvægi.
En þá að Grænlandsjökli
Grænlandsjökull er af allt öðrum stærðarflokki en Vatnajökull og hverfur ekki svo glatt á stuttum tíma þrátt fyrir mikla hlýnun. Hversu stór jökullinn hefur verið á tilteknum tímapunkti er erfitt að segja til um og ekki tókst mér að finna kort sem sýnir jökulinn á hlýskeiði síðustu árþúsunda. Hinsvegar eru önnur kort gagnleg eins og þessi þrjú hér að neðan.
Fyrsta kortið sýnir Grænland nútímans. Jökullin þekur um 80% landsins. Meðalhæð yfirborðs er 2.135 metrar, þykktin er víðast hvar yfir 2 km en mesta þykkt er yfir 3 km.
Miðjukortið sýnir landið án jökuls. Grænlandsjökull nær að stórum hluta undir sjávarmál þannig að ef hann væri fjarlægður í einum vettvangi myndaðist þar innhaf sem reyndar myndi hverfa þegar landið lyftist vegna fargléttingar. Með ströndum Grænlands eru hinsvegar fjallgarðar sem halda aftur að jöklunum og má því líkja Grænlandi við stóra skál, barmafullri af ís. Hálendi er mest allra syðst og austast.
Þriðja kortið er mjög gagnlegt en það sýnir hvernig áætlað er að þykkt og stærð Grænlandsjökuls hafi verið fyrir um 120 þúsund árum, eða seint á hinu mjög svo hlýja Eem-tímabili sem er hlýskeiðið á milli síðustu tveggja jökulskeiða. Þegar best lét var það hlýskeið 2-4 gráðum hlýrra en hlýjasta tímabil núverandi hlýskeiðs fyrir 6-9 þús. árum. Kortið er mjög nýlegt og er afrakstur Norskrar rannsóknar sem birtist í október síðastliðnum. Þar kemur fram niðurstaða sem þykir nokkur nýstárleg, því gert er ráð fyrir að vegna lítillar úrkomu sé hinn kaldari norðurhluti Grænlands viðkvæmari fyrir hlýnun en suðurhlutinn, öfugt við það sem oftast hefur verið talið. Vesturhlutinn er einnig viðkvæmari en austurhlutinn enda fellur mesta úrkoman á suðausturhluta jökulsins. Jökulinn á syðsta hluta landsins hefur einnig haldið velli, bæði vegna mikillar úrkomu og hæðar landsins undir jökli. Aðalmálið er þó að jökullinn á þessu mikla hlýskeiði er heill og óskiptur þrátt fyrir minnkandi flatarmál og talsverða þynningu heilt yfir. Hann hefur því ekki verið margskiptur í smájökla eins og Vatnajökull enda allt annað dæmi hér á ferð.
Grænlandsjökull fyrir 2.500 árumÞá er loksins komið að kortinu sem óskað var eftir að ég teiknaði. Það er byggt á áðurnefndum upplýsingum og hef ég þá í huga að núverandi hlýskeið sem hófst fyrir um 10 þúsund árum hefur ekki verið eins hlýtt og hlýskeiðið þar á undan (þ.e. Eem fyrir 120-130 þúsund árum). Að auki var hlýjasta tímabili núverandi hlýskeiðs (Holocene) yfirstaðið fyrir 2.500 árum og jöklar farnir að stækka á ný. Mín óvísindalega niðurstaða er því sú að Grænlandjökull hafi þarna verið stærri en sést á kortinu frá Eem en samt minni en hann er í dag. Kortið mitt sýnir því jökulstærð sem er einhverstaðar þarna á milli en auðvitað er óvissan talsverð enda teikna ég jökulinn með mjög mjúkum dráttum frekar en að sýna skörp skil. Sennilega hefur þó meginjökullin verið álíka fyrirferðamikill víðast hvar en mestur munur liggur væntanlega í lengd skriðjöklanna sem teygja sig í átt til strandar á milli fjallaskarða.
Hvort menn séu sáttir við þessa niðurstöðu veit ég ekki en auðvitað verður að taka öllu með fyrirvara. Hlýnun á Grænlandi hefur verið mjög skörp á síðustu öld og á síðustu árum hefur mikil bráðnun verið í gangi á jöklinum og jökulsporðar hopað mikið eins og hér á landi. Jökullinn er því ekki í jafnvægi miðað núverandi hitastig og því síður ef hlýnar enn meir. Það verður síðan að hafa í huga að minni jökulútbreiðsla fyrir 2.500 árum þarf ekki að þýða að hlýrra hafi verið þá enda fóru jöklar stækkandi fyrir 2.500 árum öfugt við í dag þegar þeir fara ört minnkandi og sér ekki fyrir endann á því ef rétt reynist að núverandi hlýnun sé að stórum hluta af mannavöldum. Eitt er allavega víst að hlýnunin nú er ekki að sama toga og sú sem leiddi til þess að ísaldarjökullinn hvarf og íslensku jöklarnir að mestu leyti enda fer sólgeislun að sumarlagi enn minnkandi til langs tíma vegna minnkandi möndulhalla jarðar.
Læt þetta duga en lofa engu um gerð sambærilegrar myndar af öllum norðurslóðum fyrir 2.500 árum.
- - - -
Heimildir sem ég studdist við eru héðan og þaðan eins og oft áður.
Um Norsku rannsóknina sem minnst var á, má lesa hér á ScienceDaily: Enhanced Melting of Northern Greenland in a Warm Climate.
Svo má benda á 2ja ára gamlan bloggpistil frá Trausta Jónssyni: Saga Grænlandsjökuls - (söguslef 10)
Vísindi og fræði | Breytt 7.1.2013 kl. 13:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (213)