26.4.2012 | 17:05
Ísinn mölbrotnar á Norður-Íshafinu
Nú er farið að vora á norðurhveli og sólin skín allan sólarhringinn á norðurpólnum. Sjálfur er ég farinn að fylgjast með hvernig hafísinn bregst við vorkomunni og þá er ómetanlegt að hafa aðgang að gervitunglamyndum sem birtast daglega, eins og mósaík-myndinni af norðurslóðum sem finna má í skúmaskotum NASA-Earthdata vefsins.Núna í apríl hefur greinilega mikið gengið á þegar stórt íssvæði norður af Alaska tók að brotna upp eins og sjá má á myndum hér að neðan. Kortið sýnir hvaða svæði um ræðir. Sumarbráðnun er raunar varla farin í gang enda hörkufrost þarna ennþá og því eru sprungur sem opnast á þessum slóðum fljótar að frjósa á ný. Hafísinn þarf þó sitt pláss ef hann á að springa svona upp og það pláss skapast ekki síst vegna útstreymis hafíss frá Norður-Íshafinu. Hvort þetta uppbrot á ísnum sé óvenju mikið veit ég ekki, en óumdeilt er að hafísinn er þynnri nú en á árum áður og því að sama skapi brothættari og hreyfanlegri.
Heildarútbreiðsla hafíssins var annars nálægt meðallagi undir lok vetrar og þá vel yfir meðallagi Kyrrahafsmegin en vel undir því Atlantshafsmegin. Þetta segir þó lítið um lágmarkið í lok sumars sem veltur mikið á hversu mikið bráðnar á því svæði sem sést hér á myndunum. Ég mun standa vaktina að venju.
Myndirnar setti ég saman af gervitunglamyndum sem ég nálgaðist héðan:
http://rapidfire.sci.gsfc.nasa.gov/subsets/?mosaic=Arctic
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)