1. maí í fyrra og veðurhorfur sumarsins

Til upprifjunar má minna á að á þessum degi í fyrra var alhvít jörð í Reykjavík, samanber myndina sem tekin var í Öskjuhlíð þann 1. maí 2011.

1. maí 2011
Það var mikið kvartað yfir lélegri vorkomu á síðasta ári enda veðrið gjörólíkt veðrinu nú ár. Hitinn í apríl í fyrra var að vísu nálægt opinberu meðaltali en sunnanáttirnar voru ansi ágengar og úrkoman með allra mesta móti og af öllum gerðum. Þann 30. apríl tók að snjóa meira en góðu hófi gegndi sem skilaði sér í óvenjumikilli snjódýpt að morgni 1. maí. Snjórinn varð þó ekki lífseigur því mikil hlýindi gerði dagana á eftir. Þá héldu margir að sumarið væri komið sem reyndist því miður ekki alveg rétt. Snjódýptin þennan 1. maí-morgun mældist 16 cm við Veðurstofuna sem er aðeins 1 cm frá snjódýptarmeti mánaðarins í Reykjavík sem var sett að morgni 1. maí 1987 við mjög svipaðar aðstæður og í fyrra.
Þetta má notla sjá betur í myndaseríu minni 365-Reykjavík þar sem eru samskonar myndir alla daga ársins: http://www.365reykjavik.is/

- - - -
Svo er það sumarið. Verður þetta enn eitt þurrviðris-sumarið hér í Reykjavík eða er loksins komið að rigningasumri? Sjáum nú til. Fyrirbæri er til sem kallast Weather Service International sem gefur sig meðal annars út fyrir að spá fyrir um veðurlag nokkra mánuði fram í tíman. Í nýjustu spá fyrir Evrópu er talað um talsvert öðruvísi veðurmynstur en verið hefur síðustu 4 ár. Það ætti að þýða að í stað rigningartíðar á Bretlandseyjum, Danmörku og víðar í norðurhluta Evrópu má nú búast við þurrviðri og hlýindum þar en blautara veðri í suðurhluta álfunnar.

Þótt ekki sé talað um Ísland, má hafa í huga að veðurlag á Norður- og Austurlandi fylgir gjarnan veðrinu á Bretlandseyjum og Norður-Evrópu því þegar hæð sest að nálægt Bretlandi þá taka sunnanáttirnar sig upp á Íslandi með vætutíð sunnan- og vestanlands en blíðskaparveðrum fyrir norðan og austan. Slíkt veðurlag hefur einmitt ekki einkennt sumrin hér á landi frá árinu 2007. Hvort eitthvað vit sé í svona spám er ég ekki viss um, en mig grunar að þetta sé ekki fyrsta þurrviðrisspáin fyrir Bretlandseyjar á allra síðustu árum, Bretar eru líka nýstignir upp úr einhverjum blautasta apríl sem um getur hjá þeim og því alveg mögulegt að spáin skolist eitthvað til við það.

Sjá nánar: Warmth Focused in Western and Northern Europe This Summer

WSI logo

 

 

 

 


Bloggfærslur 1. maí 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband