19.5.2012 | 11:07
Eru menn alveg vissir þarna á Siglufirði?
Ég get alveg tekið undir að það hefur margt breyst til batnaðar fyrir ferðamenn á Siglufirði á síðustu árum. Síldarminjasafnið er frábært og einnig svæðið við höfnina þar sem komin eru veitingahús í nýuppgerðum húsum og skemmtilegu umhverfi. Ef eitthvað er þá fannst mér veitingahúsin samt í aðeins of skærum litum. En það er líka mjög skemmtilegt útsýnið frá bryggjunni við kaffihúsin og út að Síldarminjasafninu sem reyndar er í nokkrum reisulegum og upprunalegum húsum frá síldartímanum. Ég er því miður ekki nógu kunnugur þarna til að kalla húsin og bryggjurnar sínum réttu nöfnum, enda bara Reykvíkingur sem á lítið erindi út á land nema sem ferðamaður. Hin mikla síldarsaga Siglufjarðar er mér samt sæmilega kunn.
Nú er það stundum þannig að þegar eitthvað hefur heppnast vel þá kunna menn sér ekki alltaf læti og það er einmitt það sem ég óttast með þetta nýja hótel, Hótel Sunnu, sem á að reisa þarna við höfnina á besta stað í bænum.
Á myndina hér að neðan hef ég sett inn fyrirhugað hótel. Með þessari staðsetningu er greinilegt að öll sjónræn tengsl slitna á milli bryggjusvæðisins, þar sem kaffishúsin eru og Síldarminjasafnanna. Útlit hótelsins er í gömlum timburhúsastíl, sem er ekki slæmt í sjálfu sér, en það er samt eitthvað óekta við það og því alveg spurning hvort sé við hæfi að byggja svona umfangsmikið og áberandi gervigamalt hús á þessum stað sem tekur til sín alla athygli og skyggir á það sem er ekta gamalt og á sér sögu. En það er einmitt Síldarsagan sem gerir Siglufjörð að því sem hann er.
Loftmynd af svæðinu þar sem ég hef teiknað inn Hótelið. Myndin er af Ja.is og er ekki alveg ný.
Nú veit ég ekkert hvort nokkur umræða hefur farið fram á Siglufirði um þessi atriði sem ég nefni. Sjálfsagt er mikill spenningur í bænum fyrir þessum framkvæmdum og kannski sér enginn nokkuð athugavert við þær. Hótel sem tengist hafnarsvæðinu er góð hugmynd og á sjálfsagt eftir að verða vinsælt. En mér finnst samt eitthvað vanhugsað við þetta. Hvað með Norðurtangann sem er þarna aðeins sunnar? Má ekki reisa hótelið þar? Norðurtanginn sést neðst á myndinni hér að neðan en ég setti hring utanum svæðið sem ég tala um hér að ofan.
![]() |
1,2 milljarða fjárfesting á Siglufirði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Byggingar | Breytt s.d. kl. 11:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)