Heiðmerkureldar

Vegna umræðu um hugsanlegt sprungugos nálægt Höfuðborgarsvæðinu tók ég mig til og teiknaði kort sem sýnir hvað gæti hugsanlega gerst ef 10 km löng gossprunga opnaðist í næsta nágrenni við byggðina. Gossprunga þessi er í beinu framhaldi af gossprungum í Krísuvíkurkerfinu, með sömu stefnu og nær frá Helgafelli ofan Hafnarfjarðar og þaðan yfir Heiðmörk og endar rétt ofan við Elliðavatn. Líkurnar á akkúrat svona stóratburði eru ekki miklar enda er 10 km gossprunga ansi löng. Ef gos verður á annað borð í Krísuvíkurkerfinu er líklegra að það verði nær miðju eldstöðvakerfisins og næði ekki svona langt í norðaustur. Gos og hraunrennsli tengt Krísuvíkurkerfinu gæti því allt eins runnið að megninu til suður með sjó. Gossprungan gæti líka opnast í nokkrum aðskildum umbrotum svipað og gerðist í Kröflueldum og einnig gæti eldvirknin fljótlega safnast á einn stað á sprungunni eins og reyndar gerist gjarnan. En það sem ég hef teiknað hér upp er aðeins möguleiki. Kannski hinn versti og fjarlægasti.

Kortið er unnið af kortavefnum á ja.is. Hraunið teiknaði ég inn með því að fara eftir hæðarlínum eins og ég best gat séð út úr kortinu. Ég vil hafa alla fyrirvara á þessu og vona að ég sé ekki að skapa óþarfa hræðslu eða koma einhverjum í uppnám. Það má stækka kortið talsvert með nokkrum ásmellingum.

Heiðmerkureldar

Heiðmerkureldar gæti þetta gos kallast. Með þessari staðsetningu á gossprungu og eins og ég teikna hana eru ýmis borgarhverfi í hættu svo sem Vallarhverfið í Hafnarfirði og sjálft Álverið. Ein hrauntungan rennur inn í miðbæ Hafnarfjarðar og út í höfnina. Breiðari straumur liggur milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar og í sjó fram við Gálgahraun eftir viðkomu í IKEA. Nyrsti hraunstraumurinn (og kannski sá ólíklegasti) rennur í Elliðavatn og fyllir það, en síðan liggur leiðin niður Elliðaárdal og út í Elliðavoginn. Með þessum hamförum eru allar leiðir út úr borginni vestan Elliðaáa í hættu og nokkur hverfi einangrast. Það myndi þó varla gerast strax í upphafi þannig að fólk ætti að hafa ágætan tíma til að forða sér. Fjöldarýming Höfuðborgarsvæðiains ætti að vera óþörf en verra er þó auðvitað með ýmsar veitustofnanir svo sem vatn og rafmagn. Fólk þarf þó ekki að óttast öskufall í svona gosi því þetta er fyrst og fremst hraungos - og allnokkuð ólíklegt. 


Bloggfærslur 27. maí 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband