Heiðmerkureldar II

Í síðustu bloggfærslu gerði ég tilraun til að sýna á korti hvað gæti gerst ef 10 kílómetra löng gossprunga opnaðist suðaustur af Höfuðborgarsvæðinu. Sprungan náði frá Helgafell í norðaustur til svæðisins ofan við Elliðavatn. Úr þessu lét ég renna mikið hamfarahraun sem náði til sjávar í Elliðaárvogi, Garðabæ, Hafnarfirði og Straumsvík.

En nú afsannast það sem stundum er sagt að þar sem hraun hafa runnið áður, þar geta hraun runnið aftur. Allavega á það við í þessu tilfelli því hér í nágrenni höfuðborgarinnar hafa landbreytingar orðið þannig að hraun þurfa sumstaðar að renna upp á móti til að fylgja eftir fyrra rennsli. Kortið sem ég teiknaði hér í síðustu færslu var því ekki rétt í þeim grundvallaratriðum, að nú á dögum er varla möguleiki á því að rennandi hraun rétt austan Heiðmerkur komist inn í Garðabæ og miðbæ Hafnarfjarðar. Málið snýst um misgengi og landsig sem myndar hina svokölluðu Hjalla sem ná frá Kaldársseli til Elliðavatns og hindra rennsli til þéttbýlissvæðanna í vestri. Landssigið er allt að 65 metrum þar sem það er mest og hefur aukist mjög eftir að Búrfellshraunið rann til núverandi byggða í Hafnarfirði og Garðabæ fyrir um 7.200 árum. Á þetta mikilvæga atriði var bent í athugasemd Marínós G. Njálssonar og svo sá ég að Ómar Ragnarsson nefndi það sama á annarri bloggsíðu. Eftir vettvangsferð að Kaldárseli og Búrfellsgjá sannfærðist ég svo betur um málið. Til að bæta fyrir þetta, hef ég endurgert kortið þannig að nú falla hraunstraumar til sjávar aðeins á tveimur stöðum: við Elliðaárvog og norður af Straumsvík

 Heiðmerkureldar II

Sem fyrr vil ég hafa alla fyrirvara á og tek fram að varla er líklegt að svona löng gossprunga opnist á þessu svæði. Gossprunga þessi myndi tilheyra Trölladyngjukerfinu og hafa sömu stefnu og aðrar gossprungur suðvestanlands. Svæðið við Krísuvík tengist einnig þessu kerfi en þar er hugsanlega einhver kvika á ferð sem gæti mögulega hlaupist út í sprungureinar á sama hátt og í öðrum sprungugosum. Þótt líklegra sé að mesta eldvirknin væri nær miðju eldstöðvarkerfisins í suðvestri geta talsverð hraun komið upp nálægt Helgafelli. Vegna fjarlægðar er hinsvegar ólíklegra að það gerðist í stórum stíl nær Elliðavatni og því má setja stórt spurningamerki við það hvort hraun úr þessu kerfi geti yfirfyllt Elliðavatn nægilega til að fá hraunrennsli yfir Árbæjarstíflu og niður í Elliðaárvog. Líklegra er svo að slíkt hraunrennsli komi úr næsta eldstöðvakerfi austanvið, nefnilega Brennisteins- og Bláfjallakerfinu eins og tilfellið var með Leitarhraunið sem rann niður í Elliðavog fyrir um 4.800 árum.

Sem fyrr Vallarhverfið, syðst í Hafnarfirði í vondum málum og samgöngur rofnar við Reykjanesbraut. Þarna er helsta áhættusvæðið varðandi hraunrennsli í byggð á höfuðborgarsvæðinu og spurning hvort ekki mætti huga þar að einhverjum varnargörðum ef grunnsemdir vakna um yfirvofandi eldvirkni. Í nágrenni Elliðavatns gæti nýja hverfið við Norðlingaholt staðið tæpt og Suðurlandsvegur einnig. Umferð yfir stóru brýrnar við Elliðaár er einnig ógnað en þó ekki endilega. Kannski verður bara ásókn í að koma sér fyrir á Höfðabakkabrú og fylgjast með hinni glæsilegu sjón þegar glóandi hraunelfan streymir þar undir í kvöldhúminu.


Bloggfærslur 2. júní 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband