Rigning og rok, þurrkar og fleira.

Sjónvarpskort

Það væri tilbreyting hér í veðurleysunni að fá svo sem eins og eitt almennilegt landsynningsslagviðri með mörgum millimetrum og metrum á sekúntu. Veðurkortið sýnir veðrið á morgun kl. 18 en eins og glöggir lesendur átta sig á er hér um gamalt veðurkort að ræða og viðkomandi morgundagur löngu liðinn. Ég man ekki hvar á netinu ég fékk kortið á sínum tíma, en þessi gömlu handteiknuðu veðurkort taka auðvitað öllu fram sem boðið er upp á í dag. Og þótt litinn skorti, þá liggur við að maður finni fyrir rigningunni og vindinum.

Úrkomuleysið að undanförnu hefur verið í umræðunni og virðist sem við séum orðin föst í þessum snemmsumarþurrkum ár eftir ár. Þetta er talsverð breyting frá því er ég var alast upp en þá var aðalkappsmálið að eiga góð Nokia stígvél svo hægt væri að vaða í dýpstu drullupollana – ekki síst að sumarlagi. Það var líka talsvert kaldara á mínum uppvaxtarárum á 8. áratugnum og því freistandi að segja að blaut sumur fari saman við kaldari tíð. Kannski á þetta frekar við um sunnan- og vestanvert landið sem fær að finna fyrir því þegar lægðirnar stefna beint á landið.

Vedurkort MetOfficeNú á tímum meiri hlýinda fara lægðirnar hinsvegar beint til Bretlandseyja með þeim aukaverkunum að hæg norðaustlæg eða austlæg átt verður ríkjandi hér á landi með almennum sumarþurrkum víðast hvar en svalara sjávarlofti við strendur austan- og norðanlands.

Nú er auðvitað sígilt að velta fyrir sér hvort þetta sé veðurbreyting sem komin er til að vera. Ég held að því sé varla treystandi því veðrið leitar gjarnan í gömul för og tímar stígvélaðra sumra því ekki endilega liðnir. Samhengi hlutana er þó ekki alltaf einfalt því auðvitað getur líka rignt duglega í hlýindum – og öfugt. Hitasveiflurnar eru samt nokkuð ljósar og þar gæti hitastigi sjávar spilað inní. Undanfarin ár hefur hlýr sjór verið ríkjandi hér við land, svipað og á síldarárunum um miðja síðustu öld. Gott er í því sambandi að kíkja á AMO myndina (Atlantic Multidecadal Oscillation) sem endurspeglar ágætlega þróun sjávarhita hér nyrst í Atlantshafinu þegar tilraun hefur verið gerð til að jafna út leitnina upp á við vegna almennrar hlýnunnar. Samkvæmt þessu höfum við greinilega verið í hlýju pósitívu ástandi frá því fyrir 2000 en þó ekki alveg eins öflugu og á árunum 1930-1945. Ómögulegt er að segja hversu lengi þetta varir en miðað við lengd síðustu tímabila gæti þetta hlýja tímabil allt eins verið hálfnað. 

AMO 1880-2011


Bloggfærslur 25. júní 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband