4.8.2012 | 00:53
Ólympíuhetjur og fulltrúi alþýðunnar
Nú þegar frjálsu íþróttirnar eru hafnar á Ólympíuleikunum er hægt að segja að keppnin sé hafin fyrir alvöru. Fram að þessu hefur sjónvarpsáhorfendum nánast verið drekkt með endalausum sundkeppnum þar sem íslensku þátttakendurnir eru jafn langt frá sínu skásta og endranær á svona stórmótum. Annars hefur árangur Íslendinga á Ólympíuleikum í gegnum tíðina verið mjög glæsilegur ef sú skoðun er höfð í huga að þeir síðustu verða ávallt fyrstir og þeir fyrstu síðastir. Stöku sinnum hafa góðmálmar reyndar lent í höndum Íslendinga, ekki síst þarna í Peking þegar handboltamenn komu heim með heilan silfursjóð.
Framfarir í sambandi við Ólympíuleika hafa sennilega verið mestar á fjölmiðlasviðinu og af sem áður var þegar treysta þurfti á æsilegar útvarpslýsingar af framgangi okkar helstu íþróttakappa. Ein slík lýsing er mér minnisstæð frá Ólympíuleikunum í Moskvu árið 1980 þar sem meðal annars keppti einn okkar besti 1500 metra hlaupari, Jón Diðriksson. Lítt kunnur fréttamaður, Stefán Jón Hafstein, hafði verið sendur á vettvang og lýsti hann 1500 metra hlaupinu. Allan tímann jós Stefán miklu lofi á Jón Diðriksson sem snemma tók forystu í hlaupinu en inn á milli í öllum hamaganginum mátti heyra eitthvað á leið: hann er fyrstur
hann er annar
hann er orðinn þriðji
hann dregst aðeins afturúr
hann kemur í mark og er sjöundi í riðlinum
frábært hlaup hjá Jóni.
Þótt menn komi síðastir í mark er ekki þar með sagt að þeir séu einhverjir aukvisar eða meðalmenni enda hafa íþróttamenn á Ólympíuleikum lagt á sig ómælt erfiði árum saman. Það má til dæmis minna á að Jón Diðriksson er ennþá handhafi Íslandsmetsins í 1500 metra hlaupi samkvæmt metaskrá FRÍ.
Til að sýna fram á raunverulega getu keppenda á Ólympíuleikunum, ekki síst hinna lakari, langar mig að varpa fram þeirri tillögu að í hverri einstaklingsgrein keppi alltaf einn óbreyttur borgari sem gæti kallast Fulltrúi alþýðunnar. Hann væri valin af handahófi en eina skilyrði fyrir þátttöku hans er að hann hafi burði til að ljúka keppni. Smá sýnishorn af 110 metra hindrunarhlaupi á einhverju móti í Kína fer hér á eftir en miðað við framgöngu eins keppandans verður ekki betur séð en þarna sé einmitt kominn fulltrúi alþýðunnar sem lætur ekki takmarkaða getu hindra sig.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 01:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)