6.1.2013 | 01:30
Reykjavíkurhiti í kubbamynd
Árið 2012 hefur nú fengið sinn sess í kubbamyndinni sem ég gerði á sínum tíma og hef uppfært síðan. Nú liggur fyrir að meðalhiti liðins árs í Reykjavík var 5,5 stig. Það er alveg í samræmi meðalhita síðustu 10 ára og 1,2 gráðum yfir 30 ára meðaltalinu frá 1961-1990 og hálfri gráðu yfir hlýja 30 ára meðaltalinu 1931-1960. Þetta var líka 12 árið í röð með meðalhita yfir 5 stigum og eru nokkur ár síðan svo mörg hlý ár í röð töldust vera einsdæmi enda hafa hlýindin frá síðustu aldamótum verið með eindæmum.
Nýliðið ár er grænblátt að lit sem er litur áratugarins. Það er í félagsskap með tveimur öðrum jafnhlýjum árum 1928 og 2007 sem líka geta talist vera góðærin áður en allt hrundi. Annars sést þarna ágætlega hvernig áratugirnir dreifast á hitaskalanum. Sá síðasti hélt sér alfarið ofan við 5 stigin öfugt við fyrsta áratug 20. aldar sem komst ekki upp fyrir 4,5 stigin. Efst trónir þarna árið 2003 með 6,1 stig í meðalhita en árið 1979 situr sem fastast á botninum með árshita upp á aðeins 2,9 stig. Árið 1995 er síðasta kalda árið sem komið hefur og mætti segja að það marki lok kalda tímabilsins sem hófst um eða upp úr 1965.
Nokkur ár frá hlýindaskeiði síðustu aldar veita hlýjustu árum seinni tíma harða keppni en óvissa vegna tilfærslu veðurathuganna er þó alltaf einhver eins og stundum er tekið fram í tilkynningum Veðurstofunnar. Það sem hinsvegar dregur meðalhita fyrra hlýindatímabilsins niður er meiri óstöðugleiki í hitafari en verið hefur á núverandi hlýskeiði.
Það er klassískt að velta fyrir sér hvort árshitinn sé kominn til að vera yfir 5 stigunum. Það finnst mér sjálfum frekar ólíklegt og treysti auk þess ekki alveg á að nýhafinn áratugur verði endilega hlýrri en sá síðasti. Áratugurinn fer þó vel af stað og ekki síst nýhafið ár 2013.
Vísindi og fræði | Breytt 7.1.2013 kl. 15:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)