Flugvöllur á Bessastaðanesi

Öðru hvoru kemur upp umræða um framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar. Í þeirri umræðu er algerlega horft fram hjá því að í höfuðborgarsvæðinu miðju er til staðar marflatt, ónotað landsvæði á stærð við það sem fer undir Reykjavíkurflugvöll í dag. Hér er ég að tala um Bessastaðanes á Álftanesi en þangað hafa fáir komið og margir vita jafnvel ekki að yfirleitt sé til. 

Á meðfylgjandi mynd hef ég teiknað inn flugvöll með þremur flugbrautum sem eru jafnlangar þeim sem eru í dag og stefnan er svipuð. Vegtengingar hef ég einnig sett inn en með þeim fæst ný leið í miðbæinn frá suðurbyggðum sem tengist hinni breiðu Suðurgötu í Reykjavík. Til að trufla ekki skipa- og skútuumferð geri ég ráð fyrir göngum undir Skerjafjörð, þannig að flott skal það vera. Með þessum akbrautum þyrftu menn ekki að keyra í gegnum hlaðið hjá Forsetanum sem áfram ætti að geta sinnt sínum störfum án ónæðis. Aðflugsleiðir sýnast mér vera nokkuð hagstæðar þarna því lítið er um byggð allra næst flugvellinum og ekki er lengur flogið yfir miðbæ Reykjavíkur.

Álftanesflugvöllur

Sjálfsagt hefur þessi kostur verið skoðaður í þeim úttektum sem gerðar hafa verið og af einhverjum ástæðum hefur hann ekki átt upp á pallborðið. Kannski hafa Álftnesingar ekki viljað flugvöll þarna en það sveitarfélag er að vísu ekki til lengur. Kannski þykir þetta vera of nálægt forsetanum eða fuglum, en kannski er málið að svæðið er ekki í eigu borgarinnar – ólíkt Hólmsheiðinni, en sá staður held ég að henti betur föngum en flugvélum. Þetta mun þó auðvitað kosta sitt og auðvitað hefur enginn efni á þessu. Það má samt alveg ræða þetta enda held ég að vitlausari hugmyndir varðandi flugvöllinn hafi komið upp.

 


Bloggfærslur 20. mars 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband