28.3.2013 | 23:11
Á Heklu í Eldgosi
Oft hef ég hugsað út í hvernig það væri að vera staddur á Heklutindi og fá þær fréttir að eldgos væri yfirvofandi í fjallinu. Ætti maður einhverja möguleika á að koma sér úr hættunni eða er voðinn algerlega vís ef við gerum ráð fyrir að fyrirvarinn sé aðeins hálftími svo maður miði við tilkynninguna sem lesin var upp í útvarpinu fyrir síðasta gos árið 2010?
Látum okkur nú sjá. Hugsunin gengur út á að ég sé einn uppi á Heklu með litla vasaútvarpið, sem í þessu tilfelli eins og í öðrum fjallaferðum er sjálfsagt öryggistæki. Nú heyri ég tilkynningu um að Hekla sé að fara gjósa innan skamms og ekki um annað að ræða en að koma sér burt eins fljótt og auðið er. En nú eru góð ráð dýr, hvert ætti maður að fara?
Aðaluppgönguleiðin á Heklu liggur meðfram háhryggnum úr norðaustri og sama leið er farin til baka. Þessi leið er hinsvegar alveg banal ef eldgos er í vændum því í flestum Heklugosum gýs meðfram háhryggnum - jafnvel eftir endilöngum hryggnum sem liggur í stefnuna suðvestur-norðaustur. Til að komast sem fyrst úr hættusvæði kemur því vart annað til greina en að fara stystu leið niður brattann þvert á hrygginn og vona það besta. Þá er spurningin hvort betra sé að fara niður vestur- eða austurhliðina (réttara sagt norðvestur- eða suðausturhliðina). Sú ákvörðun gæti ráðist af vindátt því feiknamikið öskufall fylgir upphafsfasa Heklugosa þannig að í austanátt ætti að vera betra að fara niður austanmegin en vestanmegin í vestanátt.
En þessar tvær Hekluhliðar eru ekki jafn hættulausar. Í síðustu gosum hafa mikil hraun runnið niður austanmegin og sú hlið getur því að sama skapi verið mjög ógreiðfær á köflum þegar mikið liggur við. Einnig hlýtur að vera talsvert meiri hætta á lenda beinlínis í hraunstraumi þarna austanmegin eða króast af milli tveggja strauma, sem er ekki gott. Tala nú ekki um ef gosrás opnast þarna í hlíðinni eins og gerðist í gosinu 1991.
Með þetta í huga er ákveðið að halda niður vesturhlíðina til norðvesturs jafnvel þótt vindátt sé óhagstæð. Sennilega er hægt að finna góða leið niður þarna megin og best ef hægt væri að hlaupa niður snjóskafl eða einhverja slétta skriðu. Álitlegt er að stefna á Litlu-Heklu sem er dágóður stallur í hlíðinni norðvestanmegin, um tvo kílómetra frá toppnum og ef allt gengur að óskum er maður kominn langleiðina þangað þegar ósköpin byrja.
Ef við gerum ráð fyrir hefðbundinni byrjun þá hefst gosið með sprengingu í toppgígnum en síðan rís gosbólsturinn sífellt hærra á loft og verður orðinn ógnvænlegur á skömmum tíma. Sennilega gerist ekkert meira í bili nema að bólsturinn breiðir úr sér, þekur sífellt stærra svæði himinsins og dimmur skuggi leggst yfir landið. Síðan koma hættulegar sendingar að ofan, fallandi molar og bombur lenda allt í kring og svo kemur sjálf askan og með henni fer skyggnið niður í ekki neitt. Þá er eins gott að dúða höfuðið eins og mögulegt er, setja á sig skíðagleraugu og verja öndunarfærin.Talsverð hætta er þarna líka á einhverskonar hlaupum niður fjallshlíðina með brennheitum gufum sem engin leið leið er að hlaupa undan eða jafnvel gusthlaupum þegar mökkurinn fellur niður eins og í Vesúvíusi á sínum tíma, nema bara í smærri stíl. Slíkt gerði algerlega út af við mann.
Fyrstu hraunin fara í framhaldinu að renna hratt niður hlíðarnar þegar sjálfur eldurinn kemur upp og gossprungan lengist eftir háhryggnum. Þarna er ómögulegt að vita fyrirfram hvernig hlutirnir haga sér. Gosrásir geta opnast hvar sem er umhverfis fjallið og hraunin runnið hvert sem er. Hér er þó allavega gott að vera kominn að Litlu-Heklu og meta stöðuna. Hraunin ættu ekki að renna akkúrat þangað nema gosrás opnist einnig akkúrat þar. Sé maður ekki algerlega áttavilltur, sturlaður eða slasaður er stefnan tekin áfram niður á við í norð-vestur þar sem við tekur greiðfær leið um hraunlítil svæði til norðurs og svo bara áfram og áfram í þeirri von að maður komist úr mesta mekkinum. Eftir 9-10 kílómetra þrautagöngu gæti maður náð að veginum að Landmannaleið eða farið meira til vesturs yfir erfiðara landslag og komið að Landveginum suður að Búrfelli og bíða þess að verða bjargað.
- - - -
Þessi atburðarás er auðvitað bara hugarburður og miðast við það sem ég þekki eða get ímyndað mér. Fjallgöngur eru orðnar mikið sport hér á landi og ef fyrirvaralítið gos hefst á miðjum sumardegi er frekar líklegt að einhverjir séu á fjallinu. Ég hef einu sinni gengið á Heklu. Það var sumarið 1990 en í byrjun næsta árs hófst eitt af þessum algerlega óvæntu gosum í Heklu. Á seinni stigum þess fór ég í útsýnisflug og tók þá þessa mynd sem sýnir suðausturhlíðina og síðasta lífsmarkið í gosinu þarna í neðri hlíðunum. (Efri myndin er tekin af vefmyndavél Mílu, 17. júní, 2012)
Vísindi og fræði | Breytt 29.3.2013 kl. 00:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)