25.4.2013 | 15:34
Jafn kalt á Íslandi og á norðurpólnum?
Sumarið er komið á Íslandi samkvæmt almanakinu þótt sumarhitar bíði betri tíma og einhver bið sé á því að grundirnar fari að gróa. En þótt kalt sé á Íslandi þarf það ekki að þýða að kalt sé allstaðar samanber kortið sem hér fylgir og sýnir hita á norðurhveli í tveggja metra hæð kl. 12 (GMT) á föstudag. Á kortið hef ég sett inn rauðan punkt við norðurpóllinn og er ekki annað að sjá en hitinn þar sé nokkuð svipaður og á Íslandi, eða nálægt frostmarki miðað við hvar frostmarkslínan liggur. Að vísu má ekki tæpara standa þarna norðurfrá því stutt er í 30 stiga heimskautagaddinn sem hækkandi sólin hefur ekki enn náð að vinna bug á.
Ég geri ráð fyrir að hiti upp undir frostmark á sjálfum norðurpólnum sé ekki beint venjan í apríl en auðvitað fer hitastig hverju sinni ekki bara eftir breiddargráðum. Kannski er hægt að tala um hitabylgju þarna á norðurpólnum enda streymir þangað hlýtt loft sunnan úr Atlantshafi. Til mótvægis gerir kalda loftið gagnárásir til suðurs, meðal annars til Íslands og veldur einhverskonar kuldakasti hér, sem þó gæti verið mun verra ef hafísinn væri ekki víðsfjarri - ólíkt því sem gjarnan gerðist í gamla daga.
Auðvitað er það mikil klisja að segja að sumarið verði gott ef sumar og vetur frjósa saman eins og víðast gerðist hér að þessu sinni. Veðurfræðingar gera fæstir mikið úr þessari bábilju og segja helst sem minnst um komandi sumar. Á einhverjum tímapunkti þarf þó sumarið að byrja ef menn vilja halda upp á formlega árstíðaskiptingu. Það að hinn fyrsti Íslenski sumardagur sé í raun tímasettur snemma að vorlagi er til marks um að hér á landi voru lengst af bara tvær árstíðir: vetur og sumar. Aftur á móti er haustið og vorið bara seinni tíma innflutt hugtök eins og hver annar ósiður sem tekinn er upp frá útlöndum.
![]() |
Vetur og sumar frusu saman |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)