Tröllasteinar á heiðinni

Hraundalur

Laugardaginn 17. ágúst fór ég í afskaplega langa og krefjandi gönguferð um heiðarnar norðan Hraundals sem liggur austur úr Ísafjarðardjúpi og var ég kominn alla leið að Ófeigsfjarðarheiði er ég snéri við og gekk heiðarnar sunnan dalsins til baka. Samkvæmt mælingu eru þetta um 36 kílómetrar og tók leiðangurinn um 18 klst með góðum og gagnlegum stoppum sem meðal annars voru nýtt til myndatöku. Um Ófeigsfjarðarheiði liggur gömul gönguleið milli Ísafjarðardjúps og Strandasýslu með listilega hlöðnum vörðum enda nægt framboð af efnivið í slík mannvirki á heiðinni. Svæðið er skammt sunnan Drangajökuls og lá leiðin meðal annars um forna jökulruðninga og mikið grjótlandslag þar ýmsar steinrunnar kynjaverur urðu á vegi manns eins og sjá má í eftirfarandi myndaseríu.

Skjaldfönn

Við upphaf göngunnar er hér horft að bænum Skjaldfönn í Skjaldfannardal sem ber nafn með rentu, ekki síst nú í sumar þegar snjóskaflar eru með meira móti. Hraundalsáin rennur þarna úr Hraundalnum en hún á upptök sín á Ófeigsfjarðarheiði.

Hraundalur1
Kominn hér langleiðina inn eftir og sér í norður í átt til Drangajökuls. Skriðjöklar fyrri tíma hafa sumstaðar skilið eftir myndarlega grjóthnullunga á klöppum, nema einhver tröllin hafi verið í framkvæmdum.
 
Hraundalur2
Ein af vörðunum á Ófeigsfjarðarheiðinni. Þessi er með gægjugati og þegar horft er í austur sést til fjalla Strandamegin.
 
Ófeigstaðaheiði3
Einsamalt risabjarg með skepnulegt höfuðlag. Grameðla kannski?
 
Hraundalur3
Svo kom ég að þessum kjálkabrotna grjóthnullungi sem er allt annað en vingjarnlegur á svip. „Hvurn fjandann ertu að vilja hér upp á heiðinni?“ heyrðist mér hann segja.

Ófeigstaðaheiði
Þegar sól fór að lækka á lofti skipti grjótið um lit og enn fleiri persónur komu í ljós. Prófíllinn á þessum er nokkuð viðkunnanlegur, kannski er þetta hetjan góða.

Ófeigstaðaheiði2
Þessi var öllu skuggalegri þar sem hann fylgdist með mér úr fjarska. Þegar hér var komið var best að koma sér til byggða enda farið að kvölda og löng ganga eftir.
 

 


Bloggfærslur 22. ágúst 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband