25.1.2014 | 18:32
Reykjavíkurhiti og heimshiti
Það getur verið forvitnilegt að bera saman hitaþróun á einstökum stað eins og Reykjavík við hitaþróun jarðarinnar í heild. Slíkan samanburð setti ég upp á línuriti á sínum tíma en hér birtist ný útgáfa með splunkunýjustu tölum. Til að fá réttan samanburð er hitaskalinn samræmdur og ferlarnir því í réttum hlutföllum gagnvart hvor öðrum en taka má fram að Reykjavíkurhitinn er teiknaður út frá árshita á meðan heimshitinn er samkvæmt venju sýndur sem frávik frá meðaltali. Sjálfur hef ég stillt ferlana þannig af að núllið í heimshitanum er við 4,5 stig í Reykjavíkurhita. Það byggir reyndar ekki á neinum útreikningum en virðist þó vera nokkuð sanngjarnt, plús það að viðmiðunarlínurnar samnýtast. Út úr þessu kemur alveg fyrirtaks samanburðarmynd, svo ég segi sjálfur frá. Bollaleggingar eru fyrir neðan mynd.
Bollaleggingar:
Fyrir það fyrsta þá sést vel á þessari mynd hversu miklu meiri sveiflur eru í árshita milli ára í Reykjavík en á jörðinni í heild. Það er eðlilegt því Reykjavík er auðvitað bara einn staður á jörðinni og ræðst árshitinn því að verulegu leyti af tíðarfari hvers árs, t.d. því hvort kaldar eða hlýjar vindáttir hafa haft yfirhöndina á viðkomandi ári. Allt slíkt jafnast að mestu út þegar jörðin í heild á í hlut.
Talsverðar áratugasveiflur eru líka áberandi hér hjá okkur. Hlýja tímabilið á síðustu öld einkennist af mörgum mjög hlýjum árum sem eru langt fyrir ofan heimsmeðaltal þess tíma. Hitinn hér var þó mjög óstöðugur á þessu hlýja tímabili og á kaldari árunum sem komu inn á milli féll hitinn niður í það að vera nálægt heimsmeðaltalinu sem nær ákveðnum toppi árið 1944. Heimshitinn stendur síðan í stað eða lækkar ef eitthvað er þar til á seinni hluta 8. áratugarins á sama tíma og Reykjavíkurhitinn tekur dýfu niður á við og vel undir hækkandi heimshitann. Það er svo um aldamótin 2000 sem Reykjavíkurhitinn æðir upp fyrir heimshitann á ný og helst vel þar fyrir ofan þar til á síðasta ári, 2013, þegar ferlarnir krossast aftur. Ekki munar þó miklu þarna í lokin og má því segja að hitinn í Reykjavík á síðasta ári hafi verið nálægt því sem búast má við með hliðsjón af hlýnun jarðar, eins og þessu er stillt upp hér.
Í heildina hafa báðir ferlarnir legið upp á við. Reykjavíkurhitinn sveiflast mjög í kringum heimsmeðaltalið en í heildina virðist hitinn hér vera mjög nálægt hlýnun jarðar og tímabilið eftir 2000 er það hlýjasta bæði hér og á jörðinni í heild. Hitinn getur þó greinilega sveiflast mjög staðbundið hér hjá okkur án þess að það hafi teljandi áhrif á heimshitann. Hlýju tímabilin hér eru líka staðbundin hlýindi að mestu og má líta á þau sem tímabundin yfirskot að sama skapi og líta má á köldu sem undirskot miðað við heimshitann.
Hvað tekur við nákvæmlega er lítið hægt að segja um. Þróun hitafars jarðar næstu áratugi er þekkt hitamál og best að segja sem minnst. Eitt er þó víst að hitasveiflur jarðar verða ekki eins afgerandi og hér í Reykjavíkinni.
- - - - - -
Smáa letrið. Sú nýbreytni hefur verið tekin upp í tilraunaskini að birta athugasemdir eftir að þær hafa verið samþykktar af síðuhöfundi og því má búast við að ósæmilegar og óviðeigandi athugasemdir birtist alls ekki. Hvað er ósæmilegt og óviðeigandi er þó ekki alltaf auðvelt að meta og geta geðþóttaákvarðanir síðuhöfundar allt eins ráðið úrslitum. Væntanlega er þó ekki mikil þörf á athugasemdum við þessa bloggfærslu.
Vísindi og fræði | Breytt 2.2.2014 kl. 20:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)