Hitamósaík fyrir Reykjavík árin 1971-2013

Í þessari fyrstu bloggfærslu ársins kemur uppfærð litaflatamynd sem byggir á hitafari allra mánaða í Reykjavík frá árinu 1971. Hráefnið er fengið af vef Veðurstofunnar og matreitt að hætti hússins. Hver mánuður fær sinn lit eftir hitaskalanum sem fylgir en til einföldunar eru einungis fjórir litir notaðir og táknar hver þeirra hitabil upp á fimm stig.
Mánadarhiti Rvik 1971-2013

Ýmsu má velta fyrir sér þegar rýnt er í myndina en hún nær yfir tímabil sem einkennist af nokkuð köldum árum þar til fer að hlýna undir aldamótin 2000, síðan hlýjum árum sem öll eru yfir 5 stig í meðalhita þar til kom að síðasta ári sem rétt missti af 5 stigunum.

Það má sjá að fyrir aldamót voru það yfirleitt einn eða tveir sumarmánuðir sem náðu rauðum 10 stiga meðalhita í Reykjavík. Í tvö skipti, árin 1983 og 1992, náði enginn sumarmánuður 10 stigum. Eftir aldamót eru rauðu sumarmánuðirnir oftast þrír, árið 2010 urðu þeir fjórir en á síðast ári voru þeir bara tveir rétt eins og árin 2011 og 2001. Helst munar þarna um hvort júní komist í 10 stiga flokkinn eins og alloft er farið að gerast.
Bláum frostköldum mánuðum hefur fækkað mjög á síðustu árum. Tveir desembermánuðir á síðustu þremur árum eru þó bláir en nokkuð er liðið síðan fyrstu mánuðir ársins hafa verið bláir. Það gerðist síðast með herkjum í janúar og febrúar árið 2008. Apríl 1983 var mjög kaldur og er sá eini af vormánuðum sem ekki nær frostmarkinu í meðalhita.
Annars er misjafn hversu öruggir mánuðirnir eru um sinn lit. Maí vill til dæmis helst af öllu vera gulur en getur dottið niður í græna 0-5 stiga litinn. Það hefur þó ekki gerst síðan 1989. September vill einnig vera gulur en hefur þrisvar hoppað upp í þann rauða, það gerðist fyrst árið 1996 á því tímabili sem myndin nær yfir.

Látum þetta nægja og sjáum til hvernig nýtt ár spjarar sig.


Bloggfærslur 4. janúar 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband