3.10.2014 | 22:58
Mánaðar- og árshitasúluritið
Þá er komin ný uppfærsla af súluritinu yfir meðalhita mánaðanna í Reykjavík. Samskonar línurit hef ég birt nokkrum sinnum á árinu, eins og meiningin upphaflega var. Ég vissi auðvitað ekki fyrirfram hvernig hitafar ársins yrði en það hefur reynst mun hlýrra en árið í fyrra og gott betur. Sjö af mánuðum níu sem liðnir eru af árinu eru fyrir ofan meðalhita síðustu tíu ára, ágúst var alveg í meðaltalinu en júlí örlítið fyrir neðan. Allir mánuðirnir eru síðan vel fyrir ofan hið opinbera kalda viðmiðunartímabil sem nær yfir árin 1961-1990.
Þetta má sjá á súluritinu þar sem fjólubláu súlurnar standa fyrir þá mánuði sem liðnir eru af árinu en til samanburðar eru bláu súlurnar sem sýna meðalhita mánaða út frá kalda meðaltalinu 1961-1990. Þær rauðu sýna meðalhita síðustu 10 ára. Súlurnar fimm lengst hægra megin eru svo þarna til að spá fyrir um mögulega lokaútkomu ársins. Tónuðu súlurnar tvær sem þar eru, sýna hvert stefnir með árshitann í Reykjavík eftir því hvort restin verður annarsvegar í kalda meðaltalinu og hinsvegar í hinu mun hlýrra meðaltali síðustu 10 ára. Allra lengst til hægri er græn súla sem stendur fyrir meðalhitann í fyrra, 2013 (4,9°) sem var kaldasta árið í Reykjavík, það litla sem af er öldinni.
Nú ætti að vera ljóst að allt stefnir í hlýtt ár hér í Reykjavík og jafnvel eitt af þeim allra hlýjustu samkvæmt mínum útreikningum. Ef meðalhitinn það sem eftir er verður ekki nema í kalda meðaltalinu, þá endar meðalhitinn í 5,7 stigum og árið það þriðja hlýjasta á þessari öld. Ef meðalhitinn nær að halda í við 10 ára meðaltalið út árið þá verður meðalhitinn 5,9 stig sem er jafn meðalhitanum árið 2010 og tveimur öðrum árum á hlýindaskeiðinu á síðustu öld, 1939 og 1941. Aðeins árið 2003 væri þá hlýrra en þá var meðalhitin 6,1 stig. Við höfum þó í huga að dálítill óvissa háir samanburði milli þessara tveggja hlýindatímabila.
Ef hitinn heldur áfram að gera betur en 10 ára meðaltalið þá má alveg gæla við möguleikann á að árshitametið 6,1 stig frá 2003 verði jafnað eða jafnvel slegið, en þá þarf reyndar að vera ansi hlýtt. Í versta falli gæti meðalhiti ársins þó kannski dottið niður í svona 5,4 stig sem er jafnt 10 ára meðaltalinu. En miðað við frammistöðu ársins það sem af er, bendir ekkert til þess að það sé að kólna svona yfirleitt. Nema hvað? Þegar þetta er skrifað að kvöldi 3. október er akkúrat komin slydda hér í Vesturbænum sem reyndar gengur fljótt yfir.
Vísindi og fræði | Breytt 4.10.2014 kl. 00:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)