Rýnt í hafísstöðuna á Norðurslóðum

Eins og venjulega á þessum tíma árs hefur hafísinn á Norðurslóðum náð sínu vetrarhámarki í útbreiðslu og mun upp úr þessu fara að dragast saman uns hinu árlega lágmarki verður náð í september. Það vakti nokkra athygli síðasta sumar að bráðnunin varð öllu minni en mörg undanfarin sumur og engin furða að raddir heyrðust um að hafísinn væri farinn að jafna sig. Ástæðan fyrir þessari litlu bráðnun í fyrra var ekki síst kalt sumar vegna lægðagagns og lítils sólskins. Ekki ósvipað tíðarfar og var uppi hér suðvestalands síðasta sumar.
Þessi litla bráðnun sumarið 2013 var dálítið sérstök í ljósi þess að sumarið áður, 2012, sló rækilega fyrri met í sumarbráðnun eins og sjá má á línuritinu hér að neðan. Rauða lína er 2013, en sú bleika sem tekur mestu dýfuna er 2012. Til samanburðar er farið lengra aftur til áranna 2000, 1990 og 1980. Græna línan er árið 2006 en þá var vetrarútbreiðslan mjög lítil sem þó skilaði sér ekki í mjög lágri sumarútbreiðslu. Núverandi ár 2014 er táknað með gulri línu. (Myndin er unnin upp úr línuriti af síðunni Cryosphere Today)

Hafíslínurit CT 1980-2014mars

Eins og staðan er nú er flatarmál ísbreiðunnar nokkuð svipuð fyrri viðmiðunarárum. Fram að þessu í vetur hafði hafísbreiðan reyndar verið með allra minnsta móti þrátt fyrir að koma út úr frekar köldu sumri og sýnir það kannski best hversu lítið samband er á milli sumarútbreiðslu og vetrarútbreiðslu. Veturinn fyrir metlágmarkið mikla 2012 var hafísinn til dæmis lengst af útbreiddari en verið hefur nú í vetur. Ástæðan fyrir þessu litla samhengi milli sumarútbreiðslu og vetrarútbreiðslu er einfaldlega sú að þau svæði sem skipta máli varðandi vetrarútbreiðslu eru mörg hver langt utan við sjálft Norður-íshafið þar sem hinn eini sanni heimskautaís heldur sig. Til dæmis er í vetrarútbreiðslunni talinn með hafís út af Nýfundnalandi sem hefur verið með meira móti í vetur vegna kuldana í Norður-Ameríku en sá ís bráðnar fljótt og örugglega snemma vors.

Heimshiti 2014 NOOA 90 dagar

Tiltölulega lítil hafísútbreiðsla í vetur fer saman við ríkjandi hlýindi sem verið hafa á Norðurslóðum í vetur. Kuldinn hefur líka oft haldið sig annarstaðar í vetur eins og íbúar Norður-Ameríku hafa fengið að kenna á. Hér við Norður-Atlantshafið hafa hlýindin hinsvegar haft yfirhöndina. Mjög hlýtt hefur verið við Svalbarða og óvenju lítill ís var þar í vetur sem og við Barentshaf. Alaskabúar nutu líka hlýinda í vetur og í tengslum við það hefur ísinn við Beringshaf verið með minna móti. Kortið hér að ofan er frá Bandaríku Veðurstofunni NOAA og sýnir frávik frá meðalhita á 90 daga tímabili fram að 23. mars.


ísþykkt mars 2013 og 2014
En svo er það ástand hafíssins á sjálfu Norður-Íshafinu. Hér eru tvö kort sem sýna ísþykkt eins og hún er áætluð. Kortið til vinstri er frá 24. mars 2013 en til hægri er staðan eins og hún er nú. Þykkasti ísinn er að venju norður af heimskautasvæðum Ameríku en athyglisvert er að tiltölulega þykkur ís, táknaður með gulu, hefur færst úr norðri að ströndum Alaska. Miðhluti Íshafsins er í heildina aftur á móti þakinn þynnri ís en áður. Ísinn núna er einnig þynnri undan ströndum Síberíu vegna suðlægra vinda frá meginlandinu. Einnig sést vel hversu lítilfjörlegur ísinn er allt í kringum Barentshafið. Undanfarið hefur ísinn þar reyndar verið í dálítilli útrás sem skýrir að hluta útbreiðsluaukninguna sem varð nú seinni hlutann í mars. Það varir þó ekki lengi og hefur auk þess þau áhrif að það dreifist úr ísnum frekar en að hann aukist að magni. Myndin eru unnin upp úr kortum á hafíssíðu bandaríska sjóhersins: Naval Research Laboratory.

Fyrir sumarið er best að spá sem minnstu. Það er þó alltaf freistandi að spá merkilegum atburðum eins og íslausum Norðurpól þótt engin von sé til þess að gjörvallt Norður-Íshafið verði íslaust í sumarlok. Þykki ísinn í Beaufort hafinu norður af Alaska gæti orðið þrálátur og erfiður viðureignar. Allt veltur þetta þó á veðuraðstæðum í sumar. Mikið sólskin í júní og hlýir landvindar gætu gert usla ef þeir koma upp en það gerðist einmitt ekki síðasta sumar.

Læt þetta duga að sinni. Það má taka fram að þetta eru áhugamannapælingar en ég hef fylgst dálítið vel með hafísnum undanfarin ár. Held þó að það sé furðumikið til í þessu hjá mér.

- - - - - -
Smáa letrið. Athugasemdir verða birtar eftir að þær hafa verið samþykktar af síðuhöfundi og því má búast við að ósæmilegar og óviðeigandi athugasemdir birtist alls ekki. Hvað er ósæmilegt og óviðeigandi er þó ekki alltaf auðvelt að meta og geta geðþóttaákvarðanir síðuhöfundar allt eins ráðið úrslitum. Kannski er þó ekki mikil þörf á athugasemdum við þessa bloggfærslu.

 


Bloggfærslur 25. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband