Mánaðar- og árshiti í Reykjavík

Nú skal kynnt til sögunnar súlnaverk mikið sem ég hef útbúið en því er meðal annars ætlað að sýna hvert gæti stefnt með árshitann í Reykjavík, þó ekki sé langt liðið á árið. Myndin ætti að skýra sig sjálf en geri hún það ekki þá tákna bláu súlurnar meðalhita hvers mánaðar samkvæmt núverandi opinbera meðaltali 1961-1990 sem vill svo til að er frekar kalt tímabil. Rauðu súlurnar sem rísa hærra er hinsvegar meðalhiti síðustu 10 ára sem er öllu hlýrra tímabil. Fjólubláu súlurnar standa svo fyrir þá mánuði sem liðnir eru af núverandi ári, 2014.
Hægra megin við strik eru 5 súlur sem sýna ársmeðalhita. Bláa súlan þar er kalda meðaltalið 1961-1990 (4,3°) og sú rauða er meðalhiti síðustu 10 ára (5,4°). Allra lengst til hægri er græn súla sem stendur fyrir meðalhitann í fyrra, 2013 (4,9°) sem var kaldasta árið í Reykjavík, það litla sem af er öldinni.


Meðalhiti Rvik 3 2014
Spennan liggur í því hvert stefnir með þetta ár og þar koma tónuðu súlurnar tvær við sögu. Sú bláfjólubláa segir til um árshitann ef mánuðirnir sem eftir eru verða akkúrat í kalda meðaltalinu en sú rauðfjólubláa sýnir hver árshitinn verður ef restin verður jöfn meðalhita síðustu 10 ára. Eftir því sem líður á árið fæst skýrari mynd af því hvert meðalhitinn stefnir og ef vel liggur á mér mun ég birta uppfærslur oftar en sjaldan.

Fyrstu þrír mánuðir þessa árs hafa allir verið yfir meðalhita síðustu 10 ára. Ekki munar miklu í febrúar og mars, en janúar var umtalsvert hlýrri. Samkvæmt mínum útreikningum er staðan eftir þrjá mánuði þá þannig að út frá kalda meðaltalinu stefnir árshitinn í Reykjavík í 4,8 stig, en sé framhaldið reiknað út frá síðustu 10 árum stefnir árshitinn í 5,6 stig.
Ársmeðalhiti á bilinu 4,8–5,6 ætti því að vera líklegur en gæti endað neðar og gæti endað ofar. Þó að byrjunin lofi góðu er engu að treysta, samanber árið í fyrra sem byrjaði með enn meiri hlýindum en þetta ár. Haldi árið hinsvegar áfram að vera hlýtt má hafa í huga að árshitametið í Reykjavík er 6,1 stig, frá árinu 2003.


Bloggfærslur 12. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband