Samanburður á sumarveðurgæðum í Reykjavík

Samkvæmt fréttum og því sem maður heyrir þá fær sumarveðrið almennt góða dóma, ekki síst hér í Reykjavík. Ég get sjálfur tekið undir slíkt enda í samræmi við niðurstöður sem unnar eru út frá mínum eigin veðurskráningum, en meðal afurða þeirra er einkunnakerfi þar sem hver dagur fær sína einkunn á skalanum 0-8 út frá veðurþáttunum fjórum: sól, úrkomu, vindi og hita. Mánaðareinkunnir reiknast svo útfrá meðaltali allra daga og heildareinkunn sumarmánaðanna sem hér teljast vera júní, júlí og ágúst. Þannig get ég borið saman veðurgæðin eins og þau koma út úr mínum skráningum sem ná allt aftur til ársins 1986. Að þessu sinni fær sumarveðrið í Reykjavík 2016 einkunnina 5,17 og sómir það sér vel meðal margra góða sumra á þessari öld, þótt það hafi ekki náð sömu hæðum og sumrin 2009 og 2012. Með þessu sumri hafa veðurgæðin þar með jafnað sig að fullu eftir hrunið 2013 en síðan þá hefur leiðin bara verið upp á við.

Af einstökum mánuðum sumarsins þá var júní reyndar bara í sæmilegu meðallagi með einkunnina 4,8 en í þeim mánuði kom kafli upp úr miðjum mánuði sem var í daprara lagi. Að vísu missti ég af þeim kafla enda staddur suður í Róm þar sem veðrið var með þeim hætti að það hefði sprengt alla heimatilbúna gæðastaðla. En hvað um það. Veðurgæðin sótti síðan í sig veðrið hér heima og fékk júlí 5,4 í einkunn sem er mjög gott og ágúst náði 5,3 sem er jafn mikið og hitabylgjumánuðirinn ágúst 2004 fékk á sínum tíma. Sumarið að þessu sinni var reyndar öfgalaust að mestu og kemst svo sem ekki mikið í metabækur. Þetta var þó í heildina sólríkt, þurrt og hægviðrasamt sumar og ekki síst hlýtt. Það má taka fram hversu kvöldgott það var langt fram eftir ágústmánuði og næturhlýtt lengst af um hásumarið en annars miðar veðurskráningarkerfið mitt aðallega við veðrið yfir hádaginn.

Nákvæmum tölulegum niðurstöðum verður auðvitað að taka með fyrirvara enda miðast einkunnir bara við mitt skráningarkerfi en svona á heildina litið ætti þetta að gefa ágætis vísbendingar. Að hætti hússins kemur að sjálfsögðu súlurit sem sýnir samanburð aftur til ársins 1986 og eins og sjá má var ekki mikil sumargleði í Reykjavík árið 1989 en kannski skára annars staðar.

Sumarveðureinkunnir

Það má hér í lokin vísa í sambærilega útlistun frá síðasta ári en þá spanderaði ég heilmiklu plássi í stuttaralega lýsingu á öllum sumrum frá árinu 1986:

Sjá hér: http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/1975011/

 


mbl.is Mikil ánægja með sumarfrí og veður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband