Hvernig kemur Esjan undan vetri?

Samkvæmt rótgróinni venju er komið að hinum árlega samanburði á snjóalögum í Esju sem felst í því að taka mynd af Esjunni þegar skyggni leyfir fyrstu dagana í apríl og bera saman við sambærilegar myndir fyrri ára. Frá því árið 2013 hafa Esjuskaflar séðir frá borginni verið nokkuð lífseigir og haldið velli öll árin nema árið 2019. Hinsvegar hurfu allir skaflar fyrsta áratug þessarar aldar og er það lengsta slíka tímabil sem vitað er um. Ekki er þó mikill munur á hitastigi tveggja fyrstu áratuganna en auk hitans þá hafa úrkomusamir vetur og sólarlítil sumur sín áhrif.

Að þessu sinni var veturinn óvenju úrkomusamur í Reykjavík og reyndar sá úrkomumesti sem mælst hefur. Þótt sú úrkoma hafi fallið á ýmsu formi þá upplifðu borgarbúar óvenju mikinn snjó og erfiða færð seinni hluta vetrar. Esjan fer ekki varhluta af þessu því skaflar eru þar nokkuð öflugir í bland við fínlegri leifar snjókomu sem féll nú fyrir nokkrum dögum samhliða því er kólna tók í veðri eftir ágætis hlýindi og rigningar undir lok marsmánaðar. Hvort snjórinn hverfi að þessu sinni kallar á nokkur spurningarmerki að venju. Ekki hvarf snjórinn alveg í fyrra þrátt fyrir tiltölulega lítinn snjó á sama tíma og því ekki við miklu að búast í ár. Sumarið var líka ansi lengi að ná sér á strik í fyrra en það gengur ekki ef allir skaflar eiga að bráðna alveg.

Að þessu sinni birti ég myndir síðustu 10 ára. Serían nær hinsvegar aftur til 2006 og eru allar myndirnar geymdar í Esju-myndalbúmi hér https://emilhannes.blog.is/album/esja_i_april/

Esja 6. apríl 2022

Esja 6. apríl 2021

 Esja_9april2020_1500px

Esja 5. apríl 2019

 Esja 6. apríl 2018

Esja 1. apríl 2017

Esja 4. apríl 2016

Esja 1. apríl 2015

Esja 3. apríl 2014

Esja 3. apríl 2013

 


Bloggfærslur 7. apríl 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband