Heimshitinn og El Nino

Nú er enn einn loftslagsráðstefnan haldin í heiminum og sýnist þar sitt hverjum. Fer ekki nánar út í það enda ekki beint efni þessa pistils. Hinsvegar er engum blöðum um það að fletta að hiti jarðar er nú í allra hæstu hæðum. Það gildir um yfirborðshitann almennt, bæði á sjó og á landi en einnig í neðri hluta lofthjúpsins eins og kemur fram á myndinni hér að neðan sem sýnir hita lofthjúpsins skv. gervihnattamælingum á vegum háskólans í Huntsville Alabama (UAH) sem ná aftur til ársins 1979. Sá mikli hitatoppur sem nú kemur fram hefur staðið í þrjá mánuði og er um 0,9°C yfir viðmiðunartímabilinu 1991-2020. Þessi mikli hitatoppur er örugglega tímabundið ástand eins og aðrir snarpir hitatoppar og helsta ástæðan er eins og áður, El Nino í Kyrrahafinu, en væntanlega eitthvað meira. Meira um þetta neðan myndar.

UAH-ENSO–Nov2023

Neðri hluti myndarinnar sýnir hvenær hið hlýja El Ninjo ástand og andstæðan, hið kalda La Nina ástand, hafa skipst á að ráða ríkjum í Kyrrahafinu. Fyrri met-toppar í hnatthita hafa fylgt í kjölfarið á mjög öflugu El Nino ástandi, sérstaklega árin 1998 og 2016. Hið óvenjulega núna er að hiti jarðar skv. þessu hefur nú þegar skotist vel upp fyrir fyrri met og það þrátt fyrir að El Nino hefur ekki náð sínum toppi og reyndar ekki alveg víst að sá toppur verði eitthvað óvenju mikill.

Ýmislegt hefur verið nefnt sem hjálpar hitanum að ná þessum hæðum núna. Ég giska á að þar skipti mestu að yfirborðhiti sjávar er í hlýjum fasa mun víðar en í Kyrrahafinu, t.d. hér í Atlantshafinu. Núverandi sólblettasveifla hefur verið að ná sér á strik, en er þó alls ekki öflugri en venjulega, nema þá kannski miðað við fyrri væntingar. Svo hefur verið talað um neðansjávargosið mikla við Tonga í ársbyrjun 2021 sem þeytti ókjörum af vatngufu upp í andrúmloftið - hefur kannski haft sitt að segja en ber varla aðalábyrgð á toppnum næstum tveimur árum seinna.

Hvað sem veldur þessum hita núna þá má fullyrða að frávikið mun jafna sig á ný. En væntanlega ekki alveg því eftir því sem tíminn líður, og þrátt fyrir mörg bakslög, þá er leið hitans upp á við. Það er að hlýna. Reiknuð hlýnun miðað við þessar gervihnattamælingar er 0,14°C á áratug, sem þýðir 1,4°C á öld. Hér á moggablogginu er kannski ekki vinsælt að kenna um auknum útblæstri koltvísýrings og það er ekki heldur vinsælt meðal olíufursta. Skýringar aðrar en aukin gróðurhúsaáhrif af mannavöldum eru samt vandfundnar.

Enda þetta á korti sem sýnir yfirborðshita heimshafanna sem frávik frá meðalhita (1971-2000). Merki þar inn El Nino.

Hitafrávik heimshafanna nóv. 2023

 

Heimildir:
ClimateReanalyzer.org
www.drroyspencer.com - UAH Satellite-Based Temperature
www.cpc.ncep.noaa.gov - ENSO


Bloggfærslur 4. desember 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband