7.4.2025 | 20:20
Hvernig kemur Esjan undan vetri?
Hvað sem öðru líður þá er vorið framundan og Esjan enn á sýnum stað og eins og venjulega fyrstu vikuna í apríl þá kemur hér hinn árlegi samanburður á snjóalögum í Esju sem felst í myndatöku af fjallinu til að bera saman við fyrri ár. Miðað við mörg fyrri ár þá virðist ekki vera mikill snjór í Esjunni enda hefur verið nokkuð milt síðustu tvo mánuði. Sjálfir vetrarskaflarnir eru allavega ekki miklir en í efri hlíðum eru svo einnig leifar af ört minnkandi snjó sem féll þarna dagana á undan. Með venjulegu sumri er sæmilega líklegt að þetta hverfi allt í haust.
Athyglisvert er að Esjan náði að vera alveg snjólaus í lok sumars frá Reykjavík séð fyrstu 10 ár aldarinnar. Árin 2011 og 2012 var það svona meira á mörkunum. Eftir það var það ekki fyrr en sumarið 2019 sem snjórinn hvarf algerlega, og svo aftur 2023.
Í fyrrahaust hurfu allir hefðbundnir skaflar. Hinsvegar var smá ísklumpur eftir í giljunum neðan við Gunnlaugsskarð sem varð sífellt illgreinanlegri frá borginni séð uns ómögulegt var að koma auga á hann jafnvel með sjónauka, og þar með ætti skilyrðum sem miðast við snjólausa Esju frá borginni séð að vera fullnægt. Mér finnst ekki ólíklegt að þessi klumpur hafi horfið að lokum þótt vissulega hafi fjallgöngumenn náð myndum af því pínulitla sem eftir var um miðjan október. Sjálfur tók ég meðfylgjandi mynd þann 15. september.
Að þessu sinni birti ég myndir síðustu fimm ára og síðan þriðja hvert ár aftur til ársins 2006. Alla seríuna má síðan sjá í Esju-myndalbúmi hér til hliðar eða á slóðinni: https://emilhannes.blog.is/album/esjusnjor_i_april/